Fallist á áætlun um umhverfismat á Kárahnjúkavirkjun

Skipulagsstofnun hefur fallist á tillögu að áætlun um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar en gerir jafnframt grein fyrir ýmsum athugasemdum og fyrirvörum í bréfi til Landsvirkjunar. Í niðurstöðum segir Skipulagsstofnun að í heild virðist hin almenna lýsing sem fram kemur í tillögu framkvæmdaaðila ná til allra helstu þátta sem taka þarf á í mati á umhverfisáhrifum.

Samkvæmt matsáætlun fyrir álver í Reyðarfirði er áætlað að auglýsa matsskýrslu í janúar 2001 og matsskýrslu fyrir Kárahnjúkavirkjun er fyrirhugað að auglýsa í mars 2001 samkvæmt tillögu að matsáætlun. Framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun er áætlað að hefjist sumarið 2002.Skipulagsstofnun segir í bréfi sínu að Kárahnjúkavirkjun sé umfangsmikil framkvæmd sem feli í sér marga framkvæmdaþætti sem hver um sig séu matsskyldir og taldir geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Það gildir m.a. um öll lón sem eru stærri en 3 ferkílómetra, alla efnistökustaði sem eru stærri en 50 þús. rúmmetra og 150 þús. rúmmetra, alla vegi sem eru 10 km eða lengri. Aðrir einstakir framkvæmdaþættir Kárahnjúkavirkjunar falli eftir atvikum undir ákvæði 6. gr. og 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum um tilkynningaskyldar framkvæmdir og kunni þannig hver og einn einnig að geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Það er því ljóst að mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar hlýtur að verða mjög umfangsmikið. Skipulagsstofnun segir að í tillögu Landsvirkjunar að matsáætlun sé framkvæmdinni, gagnasöfnun og mati á umhverfisáhrifum lýst með nokkuð almennum hætti. Þannig liggi þar ekki fyrir upplýsingar um alla megin framkvæmdaþætti. Einnig sé farið nokkuð almennum orðum um hvernig staðið verði að mati á umhverfisáhrifum einstakra framkvæmdaþátta. Þannig liggi ekki fyrir í öllum tilvikum hvernig staðið verður að matinu, s.s um gagnasöfnun, árstíma og tímalengd rannsókna, aðferðir við mat á áhrifum og hvernig fyrirhugað er að setja niðurstöður matsins fram í matsskýrslu. Í heild virðist þó hin almenna lýsing sem fram komi í tillögu framkvæmdaraðila ná til allra helstu þátta sem taka þurfi á í mati á umhverfisáhrifum. Því fellst Skipulagsstofnun á tillögu framkvæmdaraðila að matsáætlun með fyrirvara um nánari skoðun einstakra þátta matsins annaðhvort þegar framkvæmdin verður tilkynnt til athugunar. Hægt er að lesa bréf Skipulagsstofnunar í heild á Kárahnjúkavef Landsvirkjunar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert