Vantar reglugerð um umhverfismat

HJÖRLEIFUR Guttormsson sagði á blaðamannafundi í fyrradag að verulega skorti á leiðsögn stjórnvalda í stóriðjumálum á Austurlandi og lét þau orð falla að þar væri fyrst og fremst um að kenna landlægum slóðaskap stjórnvalda í reglugerðarsmíðum. Telur Hjörleifur að ekki sé hægt að hefja mat á umhverfisáhrifum vegna framkvæmda Reyðaráls og Landsvirkjunar á Austurlandi án þess að til sé orðin reglugerð um mat á umhverfisáhrifum eins og mælt er fyrir um í 19. grein nýrra laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000.

Í bráðabirgðaákvæði laganna segir að reglugerðin skuli sett eins fljótt og auðið er og eigi síðar en 1. október 2000 en Hjörleifur telur að það sé allt of seint því á meðan engin reglugerð sé orðin til skapist óviðunandi réttaróvissa um matsferlið þegar í upphafi þess.

Margvísleg áhrif reglugerðarskorts

Í lok júnímánaðar sendi Hjörleifur frá sér athugasemdir við matsáætlanir vegna beggja framkvæmdanna, þ.e. Kárahnúkavirkjunar og álvers við Reyðarfjörð. Í báðum tilvikum kemur m.a. fram að mati á umhverfisáhrifum framkvæmdanna verði að fresta vegna þess að áðurnefnd reglugerð frá umhverfisráðherra sé ekki orðin til. Segir Hjörleifur að þar sem reglugerðin eigi að segja fyrir um framsetningu matsáætlunar, matsskýrslu og gögn, sem og um samráðsferlið skapi það óviðunandi réttaróvissu fyrir framkvæmdaraðila að hefja matsferli fyrir útgáfu lögboðinnar reglugerðar. Einnig kom fram í máli Hjörleifs að reglugerðarskorturinn skapi mikla óvissu um aðgengi almennings að málum sem þessum. Þannig sé ekki ljóst hvaða rétt almenningur hafi til athugasemda við tillögu að matsáætlun eftir að hún er send Skipulagsstofnun og hvergi komi fram hvort Skipulagsstofnun skuli auglýsa opinberlega hvenær umfjöllunartími um matsáætlun hefst en slíka auglýsingu segir Hjörleifur nauðsynlega til að almenningur geti komið athugasemdum að.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert