Lagt til að umhverfismatsskýrsla Reyðaráls liggi fyrir í janúar

Reyðarál áformar að skila matsskýrslu vegna umhverfismats álvers við Reyðarfjörð til Skipulagsstofnunar í janúar árið 2001 og gert er ráð fyrir að úrskurður stofnunarinnar liggi fyrir í apríl sama ár samkvæmt tillögu Reyðaráls að áætlun um mat á umhverfisáhrifum. Samkvæmt tillögunni hefjast framkvæmdir sumarið 2003 og fyrsti áfangi álvers verður gangsettur í júní 2006.

Hér á eftir fer tillaga Reyðaráls hf. í heild:

Reyðarál hf. leggur tillögu að áætlun um mat á umhverfisáhrifum álvers í Reyðarfirði fyrir Skipulagsstofnun 30. júní næstkomandi. Gert er ráð fyrir að sjálf skýrslan um mat á umhverfisáhrifum verði tilbúin snemma á næsta ári og úrskurður Skipulagsstofnunar verði birtur í aðríl 2001. Reyðarál kynnti áætlun sína um umhverfismat á almennum fundum á Reyðarfirði 19. júní og í Reykjavík 20. júní. Texti tillögunnar fer hér á eftir í heild sinni.

1 ÁLVER Í REYÐARFIRÐI

1.1 Inngangur

Samkvæmt lögum frá Alþingi nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, samþykktum 13. maí sl., er kveðið á um að lögð skuli fram matsáætlun til Skipulagsstofnunar eins snemma á undirbúningsstigi framkvæmdar og kostur er. Matsáætlun framkvæmdaraðila skal byggð á tillögu hans um hvaða þætti framkvæmdarinnar og umhverfis skuli lögð áhersla á í matsskýrslu og um kynningar og samráð við gerð hennar.

Fyrirhuguð framkvæmd er hluti af Noral-verkefninu sem hefur verið í gangi um nokkurra ára skeið en verkefnið felur í sér eftirfarandi:

· Vatnsaflsvirkjanir á Austurlandi.

· Álver í Reyðarfirði ásamt nauðsynlegum stoðveitum.

· Lóð og hafnaraðstaða.

· Aðrar fjárfestingar í stoðveitum.

Í þessari fyrirhuguðu matsáætlun verður fjallað um þann hluta Noral-verkefnisins sem snýr að álveri að Hrauni í Reyðarfirði. Áætluð upphafleg framleiðslugeta álversins verður 240.000-280.000 tonn á ári og áætlað er að síðar verði verksmiðjan stækkuð í 360.000-420.000 tonn á ári. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir við fyrsta áfanga álversins hefjist árið 2003 og að þeim verði lokið þegar að afhendingu rafmagns kemur árið 2006.

Framkvæmdin er matsskyld samkvæmt 5. gr. og 5. lið í 1. viðauka laganna um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000.

Tillaga þessi er unnin af ráðgjöfum Hönnunar hf. verkfræðistofu og VST verkfræðistofu í samráði við Reyðarál hf. og fleiri aðila. Leitað var umsagnar ýmissa aðila og stofnana við gerð tillögunnar. Í henni er fyrirhugaðri framkvæmd og framkvæmdasvæði lýst í stuttu máli og hvernig framkvæmdin samræmist skipulagsáætlunum. Kynnt er áætlun um hvaða þætti framkvæmdar og umhverfis verði lögð mest áhersla á í sjálfri matsskýrslunni. Einnig er fjallað um hvaða gögn eru fyrir hendi og þær viðbótarrannsóknir sem fyrirhugaðar eru á vegum framkvæmdaraðila. Að lokum er fjallað um kynningar og samráð en þar munu koma fram niðurstöður umsagnaraðila og niðurstöður kynningar með almenningi þann 19. júní nk. á Reyðarfirði og 20. júní nk. í Reykjavík.

Reyðarál hf. er framkvæmdaraðili verksins og var skipaður starfshópur með aðilum frá Reyðaráli, Hydro Aluminium, Hæfi hf. og Fjárfestingastofu-Orkusviðs (FO). Starfshópurinn réði verkefnisstjórn en gerð og ritstýring matsáætlunar og fyrirhugaðrar matsskýrslu er í höndum Hönnunar hf. verkfræðistofu og VST verkfræðistofu. Nokkrir aðilar og stofnanir koma að verkinu sem ráðgjafar.

1.2 Tímaáætlun

Tímaáætlun álvers í Reyðarfirði er eftirfarandi:

Kynning matsáætlunar: 19. og 20. júní 2000.

Matsáætlun lögð fram til Skipulagsstofnunar: 23. júní 2000.

Matsskýrsla auglýst: janúar 2001.

Úrskurður Skipulagsstofnunar: apríl 2001.

Upphaf framkvæmda: sumar 2003.

1. áfangi álvers gangsettur: júní 2006.

2. áfangi álvers gangsettur: Ákveðið síðar.

1.3 Tilgangur og markmið

Þann 24. maí 2000 var skrifað undir sameiginlega yfirlýsingu Reyðaráls hf., Hæfis hf., Landsvirkjunar, Hydro Aluminium AS og iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis um Noral verkefnið. Tilgangur þessarar yfirlýsingar er að staðfesta áhuga og skuldbindingu allra aðila til að leggja mat á hagkvæmni verkefnisins til að unnt sé að taka endanlega ákvörðun hvort ráðast skuli í verkefnið fyrir 1. febrúar 2002.

Álverið verður undirbúið af Reyðaráli hf., sameiginlegu fyrirtæki Hæfis hf. og Hydro Aluminium í Noregi en Hæfi hf. er fyrirtæki í eigu hóps íslenskra fjárfesta. Reyðarál hf. er framkvæmdaraðili og ber ábyrgð á mati á umhverfisáhrifum og gerð verkfræði- og arðsemisáætlana fyrir álverið ásamt því að útvega fjármagn til byggingar þess.

Markmið framkvæmdaraðila með byggingu álvers í Reyðarfirði er að byggja upp hagkvæman orkufrekan iðnað á Íslandi. Markmið stjórnvalda er að auka fjölbreytni atvinnugreina, stuðla að atvinnuuppbyggingu á Austurlandi og áframhaldandi hagvexti og stöðugleika í þjóðarbúskapnum. Markmið Hydro Aluminium er að auka framleiðslu á áli og markaðshlutdeild Norsk Hydro á heimsmörkuðum í viðskiptum með ál og álafurðir.

1.4 Lýsing framkvæmdar

1.4.1 Verktími

Ráðgert er að framkvæmdir við 240.000-280.000 tonna álver í Reyðarfirði hefjist árið 2003 og taki 36 mánuði. Gera má ráð fyrir að megin þungi framkvæmda standi yfir frá árinu 2003 og fram á árið 2006. Stefnt er að því að rekstur hefjist árið 2006.

Áætlað er að stækka álverið í 360.000-420.000 tonn ef aðstæður leyfa og skilyrði eru fyrir hendi. Gangsetning þess áfanga yrði líklega á árunum 2008-2010.

1.4.2 Iðnaðarlóð

Álverið verður staðsett á skipulögðu iðnaðarsvæði við Hraun og er heildarstærð svæðisins um 132 ha samkvæmt aðalskipulagi Reyðarfjarðar 1990-2010 sem nú er í endurskoðun (sjá nánar kafla 3).

1.4.3 Fyrirkomulag verksmiðjunnar

Helstu mannvirki álvers eru eftirtalin:

· Turnar fyrir súrál.

· Kerskálar þar sem ál er unnið úr súráli.

· Steypuskáli þar sem bráðið ál er mótað í stangir

· Skautsmiðja, spennistöðvar og þjónustubyggingar, þ.e. verkstæði, vöruskemmur, mötuneyti, rannsóknarstofur og skrifstofubyggingar.

· Þurr- og vothreinsivirki.

· Rafskautaverksmiðja.

Kerskálar munu liggja samsíða hæðarlínum landsins en því hallar um 5% að sjó. Kerskáli fyrirhugaðs 240.000-280.000 tonna álvers verður um það bil 1.100 metra langur. Búast má við ýmsum breytingum á seinni stigum hönnunar og því hefur nákvæm staðsetning verksmiðjunnar sem og annarra mannvirkja ekki enn verið ákveðin en gert er ráð fyrir að álverið geti hliðrast um allt að 100-200 metra frá núverandi fyrirkomulagi.

Í öðrum áfanga er gert ráð fyrir stækkun í 360.000-420.000 tonn með því að byggja helmingi styttri kerskála norðan við og samhliða þeim.

Einnig er áætlað að byggja rafskautaverksmiðju á iðnaðarlóðinni en þar fer fram bökun og framleiðsla á rafskautum (sjá kafla 4.6). Í rafskautaverksmiðju eru forskaut unnin úr olíukoksi og skautleifum. Koksið og skautleifarnar eru möluð, hituð og hnoðuð saman. Til þess að forma forskautin er blandan pressuð eða hrist í form við háan hita (140°C). Formuðu skautin kallast þá "græn" forskaut. Þau eru síðan bökuð við háan hita (1.200 °C) til þess að herða þau og fá betri rafleiðni.

Verksmiðjulóðin verður girt og umferð inn og út af svæðinu stjórnað af vörðum.

1.4.4 Framleiðsluferli

Ál verður framleitt með svokallaðri Hall-Héroult aðferð, þ.e. rafgreiningu súráls í krýolít raflausn. Notuð verður vinnslutækni Hydro Aluminium, HAL 250, sem er í flokki "bestu fáanlegu tækni" (BAT) í nútíma álvinnslu en unnið er að því í Noregi að bæta HAL 250 tæknina enn frekar um 10-15%. Í fyrsta áfanga verður byggð heil álvinnslulína en hálf eining bætist við álverið við stækkun í 360.000-420.000 tonn.

Súrál verður flutt inn með skipum og gætu stærstu flutningaskipin verið með allt að 60.000 tonna flutningsgetu.

Súrálið verður losað úr skipi með sogkrana og flutt í lokuðu loftkerfi í súrálsgeymi og þaðan til kerskála og þannig er komist hjá súrálsrykmyndun við losun skipa og flutning súráls.

Við rafgreiningu losna bæði lofttegundir og rykagnir. Lofttegundirnar eru einkum loftkennt og rykbundið flúor, koltvíoxíð og kolmónoxíð, brennisteinstvíoxíð og flúorkolefnissambönd. Þessi efni eru soguð úr kerunum og fara í hreinsivirki. Lofttegundirnar bindast súráli í þurrhreinsivirkinu og við það er 99,7% af flúorryki fjarlægt úr loftinu. Flúorhlaðið súrál úr þurrhreinsuninni er notað sem hráefni í rafgreiningarkerin. Loft frá hreinsivirki verður hreinsað að því marki að mengun verður innan leyfilegra útblástursmarka fyrir álver.

Áhersla verður lögð á að halda loft-, jarðvegs- og vatnsmengun frá álverinu í lágmarki og að besta fáanlega tækni verði notuð við rekstur þess.

Norsk Hydro hefur verið að þróa nýja tækni sem m.a. notast við hærri straumstyrk en HAL 250 tæknin og því má gera ráð fyrir um 10-15% framleiðsluaukningu á ársgrundvelli í fyrirhuguðu álveri í Reyðarfirði. Nánar grein verður gerð fyrir þessari tækni í matsskýrslu.

Eftirfarandi úrgangur fylgir álframleiðslunni og verður settur á urðunarstað á iðnaðarlóðinni:

· Kerbrot.

· Notaðar eldfastar fóðringar frá deiglum og steypuofnum.

· Kola- og stálsandsryk frá skautleifum.

· Steypuúrgangur frá byggingum.

Kerbrot ná yfir 95% af heildarmagninu en kerin endast í um 5-7 ár. Ráðgert er að notast við landförgun á kerbrotum með viðeigandi hreinsibúnaði sem uppfylla mun alþjóðlega staðla.

1.4.5 Tengdar framkvæmdir

Helstu framkvæmdir sem tengjast álveri í Reyðarfirði eru eftirfarandi:

· Kárahnjúkavirkjun með veitu úr Jökulsá í Fljótsdal með uppsett 680 MW afl.

· Höfn í Reyðarfirði.

· Tvær 400 kV háspennulínur frá Fljótsdal.

Kárahnjúkavirkjun er hluti af fyrsta áfanga Noral-verkefnisins og er gert ráð fyrir að framkvæmdir hefjist sumarið 2002 og að virkjunin verði tekin í notkun árið 2006. Hafin er vinna við mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar virkjunar samkvæmt nýsamþykktum lögum um mat á umhverfisáhrifum.

Fjarðabyggð mun byggja nýja höfn við iðnaðarlóðina og verður sérstök skýrsla um mat á umhverfisáhrifum hennar lögð fram af hálfu sveitarfélagsins.

Rafgreiningaraðferðin krefst mikillar orku. Landsvirkjun mun reisa tvær 400 kV háspennulínur frá Fljótsdalsvirkjun að álverinu en þær munu verða reknar á 220 kV í fyrsta áfanga. Mat á umhverfisáhrifum fyrir háspennulínurnar hefur þegar verið samþykkt af hálfu Skipulagsstjóra en kærufrestur þeirrar framkvæmdar er til 5. júlí 2000.

1.5 Vöktunaráætlun

Áður en starfsemi álversins hefst skal mæla grunngildi efna á svæðinu svo hægt sé að bera þær saman við framtíðarmælingar. Eftir að álverið hefur hafið rekstur verður vöktunarkerfi hrint í framkvæmd til að fylgjast með áhrifum útblásturs, frárennslis og úrgangs á umhverfið.

Vöktunin verður byggð á þeim kröfum sem Hollustuvernd ríkisins setur í starfsleyfi álversins og verður framkvæmd hennar í höndum eigenda álversins sem fær viðurkennda rannsóknaraðila til verksins.

Þær rannsóknir sem gerðar verða fyrir gangsetningu álversins eru eftirfarandi:

Mælt verður magn brennisteinstvíoxíðs (SO2) í lofti, loftkennt flúor, svifryk og flúor í ryki. Sýrustig og basavirkni verður mæld í jarðvegi og efnasamsetning grunnvatns á nærliggjandi vatnasviðum, ám og vötnum verður rannsökuð. Einnig verður mæld efnasamsetning úrkomu.

Myndir verða teknar af fléttum á klöppum og gróðri á fyrirfram skilgreindum stöðum. Mælt verður grunngildi flúors í grasi, laufi og barri sem og magn þungmálma og brennisteins í mosa.

Lífríki fjörunnar við Hraun verður kannað sem og botndýralíf. Mælt verður magn þungmálma í kræklingi.

Að lokum verður núverandi veðurfarsrannsóknum haldið áfram (sjá kafla 5.2).

Vöktun eftir gangsetningu byggist m.a. á að mæla magn SO2 í lofti á sömu stöðum í ár eftir að framleiðsla hefst. Magn loftkennds F, svifryks og flúoríða í ryki verður mælt á sömu stöðum í ár eftir að framleiðsla hefst. Endurtekið síðar í ljósi niðurstaðna.

Könnuð verða styttri óhagstæð tímabil þegar hægviðri ríkir og hitahvörf eru lág í lofti.

Taka þarf myndir af fléttum á klöppum og gróðri á þeim stöðum sem áður voru skoðaðir og bera saman við þær myndir. Endurskoða í ljósi niðurstaðna.

Mæla styrk flúors í grasi, laufi og barri árlega og bera saman við grunngildi. Kanna aftur lífríki fjörunnar eftir tvö ár í rekstri álvers. Þá endurskoða í ljósi niðurstaðna.

1.6 Framkvæmdarsvæði

1.6.1 Landslag og landnotkun

Álverið verður staðsett á iðnaðarsvæði við Hraun í Reyðarfirði eins og áður segir. Að Hrauni, sem er ríkisjörð, er landsvæðið frekar flatt og hallar um 5% til sjávar. Svæðið einkennist af mýrlendi og klöppum.

Landslagið umhverfis iðnaðarsvæðið einkennist af háum fjöllum. Fjörðurinn er tveggja km breiður þar sem álverið verður og breikkar út fjörðinn. Landbúnaður er ekki lengur stundaður á þessum jörðum að undanskilinni hrossabeit.

Vinnubúðir verða reistar á iðnaðarlóðinni norðan við kerskálana.

1.6.2 Jarðfræði

Berggrunnur Reyðarfjarðar er samsettur úr fjölda hraunlaga og setlaga sem mynduðust fyrir um 10-15 milljónum ára. Öll eldvirkni virðist hafa verið kulnuð í grennd við Reyðarfjörð fyrir 9-10 milljón árum.

Jarðvegsþykkt í Reyðarfirði er yfirleitt lítil og skaga bríkur basaltlaga víða fram úr jarðvegi og þunnum skriðum.

1.6.3 Gróðurfar

Ítarlegt gróðurkort hefur verið gert af svæðinu af Náttúrustofu Austurlands. Á fyrirhugaðri lóð álversins er að langmestu leyti gróið land. Einnig er þar mosi, gras- og blómlendi ásamt lyngtegundum og öðrum smávöxnum runnum. Á iðnaðarlóðinni fundust engar sjaldgæfar plöntutegundir.

1.6.4 Dýralíf

Takmarkað dýralíf er á svæðinu. Samkvæmt úttekt á dýralífi á svæðinu reikuðu um 20-30 hreindýr að öllu jöfnu um svæðið að vetri til. Fuglalíf á svæðinu einkennist af hefðbundnum tegundum á strandsvæði, aðallega sjófuglar og andfuglar. Að Hólmum, sem er í um 2,5 km fjarlægð frá álverinu er mjög áhugavert svæði, bæði vegna allstórs æðarvarps og vegna þess að þar er líklega eini varpstaður lunda í Reyðarfirði.

Lífríki sjávar og fjöru hefur verið rannsakað. Veiðar í firðinum eru ekki umtalsverðar, aðallega þorskur, ýsa og koli. Fjörulíf telst frekar fábrotið og engar sjaldgæfar tegundir er þar að finna.

1.6.5 Veðurfar

Ríkjandi vindátt er austur-vestur, inn og út fjörðinn, og er vindhraði að meðaltali rúmir 4 m/s (í mastri við Hraun). Eftirfarandi gildi eiga við um Kollaleiru á tímabilinu 1977-1998:

Meðalhiti er 3,6°C. Janúarmánuður er kaldasti mánuður ársins en þá mælist meðalhiti –0,8°C. Júlímánuður er hlýjasti mánuðurinn með meðalhitann 9,8°C. Ársúrkoma var að meðaltali 1.306 mm, þar af fellur að jafnaði 15% sem snjór. Veðurskilyrði í Reyðarfirði eru þess eðlis að hægviðri eru þar tíðari en annarsstaðar á landinu.

1.6.6 Náttúruvá

Reyðarfjarðarsvæðið er utan við virk jarðskjálftasvæði og áhætta vegna snjó- og skriðufalla á iðnaðarsvæðinu er einnig talin vera lítil (sjá kafla 4.12).

2 KOSTIR

2.1 Stærð álvers

Framkvæmdinni má skipta upp í fernt þar sem hver stærð er höfð með eða án rafskautaverksmiðju. Skiptingin verður eftirfarandi:

1. 240.000-280.000 t álver með rafskautaverksmiðju.

2. 240.000-280.000 t álver án rafskautaverksmiðju.

3. Stækkun í 360.000-420.000 tonna álver með rafskautaverksmiðju.

4. Stækkun í 360.000-420.000 tonna álver án rafskautaverksmiðju.

Framsetning matsskýrslu verður með þeim hætti að hægt verður að vega og meta hvern kost útaf fyrir sig.

2.2 Aðrar staðsetningar álvers

Í matsskýrslu verður gerð grein fyrir vali á staðsetningu álversins, í fyrsta lagi vali á Reyðarfirði gagnvart öðrum möguleikum eins og Keilisnesi á Suðurnesjum og í öðru lagi innan Reyðarfjarðar; Hraun gagnvart Leirum og Eyri.

2.3 ,,Núll"–lausn

Stutt umfjöllun um hvað það hefur í för með sér ef ekkert verður af framkvæmd.

3 SKIPULAG Á FRAMKVÆMDASVÆÐI

Álverið verður staðsett á skipulögðu iðnaðarsvæði við Hraun. Heildarstærð iðnaðarsvæðisins er 132 ha samkvæmt aðalskipulagi Reyðarfjarðar 1990-2010. Aðalskipulagið gerir þó ekki ráð fyrir stóriðju á iðnaðarsvæðinu og því þarfnast það endurskoðunnar. Frekari skipulagsvinna er þegar hafin því nú stendur yfir endurskoðun á aðalskipulagi fyrir Reyðarfjarðarhluta Fjarðabyggðar og verður deiliskipulag unnið í kjölfar þess á þessu ári enda forsenda starfsleyfis að fyrir liggi deiliskipulag iðnaðarsvæðisins.

Önnur svæði sem þegar eru skipulögð er friðað svæði við Hólmanes og friðað skógræktarsvæði við.

4 MAT Á UMHVERFISÁHRIFUM - VINSUN

Bygging álvers í Reyðarfirði er mikil framkvæmd og hefur margvísleg áhrif á nánasta umhverfi sitt. Með vinsun eru skilgreindir helstu umhverfisþættir framkvæmdarinnar sem mikilvægastir þykja og leggja þarf áherslu á við mat á umhverfisáhrifum. Helstu áhersluþættir vegna byggingu álvers í Reyðarfirði eru eftirfarandi:

· Hreinsun útblásturs (vot- og þurrhreinsun).

· Veðurfar og veðurfarsrannsóknir.

· Endurskoðaðir útreikningar á loftmengun.

· Þynningarsvæði.

· Kerbrot, magn og leiðir til förgunar.

· Rafskautaverksmiðja, upplýsingar um hráefni, tækni, vinnsluferil og útstreymi mengunarefna.

· Hafstraumar og líkangerð þeim tengd ásamt hugsanlegri lagskiptingu.

· Hugsanleg PAH mengun.

· Efnistökustaðir (magn efnis og staðsetning náma).

· Lífríki sjávar og fjöru.

· Umhverfisvöktun.

· Mat á aurskriðuhættu á byggingarlóð álversins.

· Félagslegar athuganir.

Til að mæta þessum atriðum hyggst framkvæmdaraðili hefja ýmsar athuganir og viðbótarrannsóknir sem útlistaðar eru í kafla 5.2.

4.1 Hreinsun útblásturs

Útblástur frá álverinu kemur einkum frá eftirfarandi starfsemi:

· Rekstur kera.

· Meðhöndlun hráefna.

· Önnur starfsemi s.s. frá steypuskála, kælingu skautleifa og kerskála.

· Rafskautaverksmiðja.

Álver í Reyðarfirði mun verða rekið með svokallaðri HAL250 tækni eins og áður hefur komið fram. Tæknin er byggð á eftirfarandi þáttum með áherslu á atriði sem miða að því að takmarka mengun sem mest:

· Þéttum kerlokum ásamt auknu útsogi gass úr keri til að halda útblæstri í lágmarki þegar kerlokur eru opnaðar til að skipta um rafskaut.

· Forskaut með lágu brennisteinsinnihaldi.

· Röðum kera hlið við hlið sem minnkar segulsvið í kerskálanum og minnkar jafnframt orkuþörf þeirra.

· Súrál er skammtað í kerin með tölvustýrðu kerfi sem minnkar hættu á risi og lágmarkar orkunotkun.

Lofthreinsibúnaður í álveri í Reyðarfirði mun uppfylla nútíma kröfur sem gerðar eru til álvera á Íslandi, en þær grundvallast á PARCOM og bestu fáanlegu rafgreiningartækni fyrir ný álver eða BAT (Best Available Technology). Auk þess grundvallast hún á bestu fáanlegu tækni til hreinsunar á útblæstri MACT (Maximum Achievable Control Technology), sem skilgreind er af Umhverfisverndarstofnun Bandaríkjanna (EPA, Environmental Protection Agency). Auk þurrhreinsunar verður settur upp vothreinsibúnaður til að halda brennisteinstvíoxíð magni í lágmarki. Í vothreinsun með sjó er kerreykur leiddur í gegnum lokaðan klefa með eins konar sturtubaði þar sem efni hreinsast úr reyknum, einkum brennisteinstvíoxíð en með vothreinsun er a.m.k. 70% af brennisteinstvíoxíði fjarlægt úr kerreyknum. Bæði þurr- og vothreinsunarbúnaður verður staðalbúnaður í álveri í Reyðarfirði frá byrjun.

4.2 Veðurfar og veðurfarsrannsóknir

Veðurfar er ráðandi þáttur varðandi dreifingu loftmengunar frá iðnaði. Það sem ræður mestu er vindhraði, vindátt og stöðugleiki lofts en úrkoma og hitafar hafa einnig áhrif. Veðurathuganir voru gerðar á fyrirhugaðri iðnaðarlóð árunum 1982-1984 og frá maí 1998 og verður þeim haldið áfram. Til að fá frekari gögn um veðurfar í Reyðarfirði til grundvallar útreikningum á loftmengun verða settar upp fleiri veðurstöðvar í Reyðarfirði en skýrt er frá þeim viðbótarrannsóknum í kafla 5.2.

4.3 Útreikningar á loftmengun

Endurskoðaðir verða útreikningar á loftdreifingu mengunarefna frá fyrirhuguðu álveri að Hrauni. Byggt verður á tveggja ára veðurgögnun frá maí 1998–maí 2000. Reiknuð verða langtímagildi og sólarhringsgildi helstu mengunarefna sem frá verksmiðjunni koma (svifryk, flúor; loftkennt og sem ryk, og brennisteinstvíoxíð). Reiknuð verður langtímadreifing brennisteinstvíoxíðs í 98% tilfella sem og sólarhringsdreifingu í 99.7% tilfella.

4.4 Þynningarsvæði

Í matsskýrslu verður gerð tillaga að þynningarsvæði umhverfis 240.000 og 360.000 tonna álver. Tillögurnar verða kynntar Hollustuvernd ríkisins og unnar í samráði við hana. Í tillögunum verða teiknaðar jafnstyrktarlínur þeirra tilfella sem ráða stærð þynningarsvæðisins með mismunandi tímalengd sem og mismunandi veðurskilyrðum. Viðmiðunarmörkin verða fundin út frá niðurstöðum loftdreifingarspár.

4.5 Kerbrot, magn og leiðir til förgunar

Rafgreiningarkerin endast að meðaltali í um 5-7 ár og að þeim tíma liðnum þarf að skipta þeim út. Ráðgert er eins og áður sagði að notast við landförgun kerbrota með viðeigandi hreinsibúnaði sem uppfylla mun alþjóðlega staðla.

Einnig verður afrennsli frá urðunarstað til sjávar vaktað og efnainnihald þess rannsakað. Samráð verður haft við Hollustuvernd ríkisins um þær rannsóknir sem og að rannsóknir á tilteknum efnum í sigvatni frá urðunarstað.

Um þessar mundir fer fram rannsókn í Noregi á kerbrotum og urðun þeirra. Rannsóknin vinnur m.a. að því að kanna hvort ekki sé hægt að nota kerbrotin í framleiðsluferlið eða endurvinna brotin þannig að magni sem urðað er verði haldið í lágmarki.

4.6 Rafskautaverksmiðja

Áætlað er að byggja rafskautaverksmiðju á iðnaðarlóðinni en þar fer fram bökun og framleiðsla á rafskautum. Ströngustu mengunarkröfum verður framfylgt við framleiðslu á rafskautunum og m.a. verður bæði vot- og þurrhreinsun sett við verksmiðjuna sem og elektróstatísk sía til frekari hreinsunar á útblæstri.

Frekari upplýsingar um rafskautaverksmiðjuna varðandi hráefni, tækni, vinnsluferil og útstreymi mengunarefna verður gerð skil í matsskýrslu. Ennfremur verður gerð grein fyrir vali á staðsetningu rafskautaverksmiðjunnar og öðrum möguleikum í þeim efnum.

4.7 Hafstraumar

Mikilvægt er að fá heildarmynd af straumum í Reyðarfirði með tilliti til hugsanlegrar sjávarmengunar. Sjá kafla 5.2.4.

4.8 PAH mengun

Í matsskýrslu verður gerð eins ýtarleg grein fyrir hugsanlegri PAH mengun frá álverinu og frekast er unnt og kynntar lausnir til að draga úr mengun, t.d. að nota önnur efni en kragasalla á forskautin, sem er aðaluppspretta PAH frá álverum. Einnig verður reiknað út ársmeðaltal í sambandi við útreikninga á loftdreifingu efnanna (sjá kafla 4.3).

4.9 Efnistaka

Helstu efnistökustaðir verða m.a. úr áreyrum Sléttuár en þar hefur efni verið tekið áður og benda athuganir til þess að hægt sé að afla a.m.k. um 500.000 m3 af lausum jarðefnum til mannvirkjagerðar. Einnig koma staðir eins og Melshorn og svæði við Fossá til greina. Nákvæm grein verður gerð fyrir efnistöku, staðsetningu efnistökustaða og endanlegu efnismagni í matsskýrslu.

4.10 Lífríki sjávar

Í matsskýrslu verður m.a gerð grein fyrir frekari rannsóknum á lífríki sjávar í Reyðarfirði sem og náttúrufari og samfélagsgerð botndýra. Einnig verða fundin viðmiðunargildi fyrir PAH í firðinum.

4.11 Umhverfisvöktun

Mikil áhersla verður lögð á umhverfisvöktun ásamt nauðsynlegum grunnrannsóknum á svæðinu, bæði fyrir og eftir gangsetningu álversins. Nánar er fjallað um vöktun í kafla 1.5. Ýtarleg vöktunaráætlun verður sett fram í matsskýrslu.

4.12 Mat á aurskriðuhættu

Veðurstofa Íslands hefur lagt mat á auskriðuhættu á fyrirhugaðri byggingarlóð álvers í Reyðarfirði og er það álit hennar að aurskriðuhætta sé lítil á lóðinni (minni en 1 af 10.000 á ári) og innan þeirra marka sem sett eru fyrir atvinnuhúsnæði í drög að reglugerð. Nánar grein verður gerð fyrir niðurstöðum Veðurstofunnar og jarðfræðilegum aðstæðum á fyrirhugaðri lóð álversins með tilliti til aurskriðuhættu í matsskýrslu.

4.13 Félagslegar athuganir

Mikil áhersla verður lögð á félagslegar athuganir á svæðinu. Fyrirhugað er að vinna sameiginlegar rannsóknir vegna mats á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar og er þeim hugmyndum lýst í kafla 5.2.8.

5 GÖGN OG RANNSÓKNIR

Talsvert er til af gögnum vegna fyrirhugaðs álvers í Reyðarfirði og koma þau að góðum notum við komandi matsvinnu. Þrátt fyrir það er þörf á ýmsum rannsóknum til viðbótar.

5.1 Fyrri rannsóknir

Helstu rannsóknir sem þegar hafa farið fram vegna fyrirhugaðs álvers í Reyðarfirði:

· Veðurfarsrannsóknir, m.a. byggðar á veðurmælingar í mastri við Sómastaðagerði.

· Mat á hljóðmengun.

· Gróðurrannsóknir og gróðurkortagerð.

· Félagslegar rannsóknir.

· Fornleifarannsóknir.

· Dýralífsrannsóknir, einkum fuglaathuganir.

· Forkönnun á lífríki fjörunnar við Hraun.

· Forkönnun við lífríki botns á grunnsævi við Hraun.

5.2 Áætlaðar viðbótarrannssóknir

Viðbótarrannsóknir sem áætlaðar eru á árinu 2000 eru eftirfarandi:

· Veðurfar: Sjálfvirk veðurstöð sett upp á Vattarnesi yst við Reyðarfjörð. Sjálfvirk veðurstöð sett upp í fjallinu upp af Teigagerði í 280 metra hæð. Sjálfvirkar vindmælingar settar upp á Kollaleiru.

· Útreikningar á loftmengun og frekari úrvinnsla á veðurfarsgögnum.

· Lífríkisrannsóknir í sjó, rannsóknir á bakgrunnsgildum fyrir PAH.

· Frekari straum- og hitamælingar í Reyðarfirði ásamt ýtarlegri módelreikningum.

· Rannsókn á lífríki Sléttuár fyrir botni Reyðarfjarðar.

· Vatnafar og rennslismælingar.

· Rafskautaverksmiðja.

· Rannsóknir á förgun kerbrota.

· Frekari félagslegar rannsóknir.

· Þjóðhagslega áhrif.

· Gerð aðal- og deiliskipulags á iðnaðarlóðinni að Hrauni við Reyðarfjörð.

Eftirfarandi er nánari lýsing á viðbótarrannsóknum:

5.2.1 Veðurfar

Frekari mælingum á veðurfari verða á vegum Veðurstofu Íslands og er skipt í 4 hluta:

1. Áframhaldandi mælingar í mastri við Sómastaðagerði en skipt verði um vindmæla.

2. Setja upp sjálfvirka veðurstöð, þ.e. vindhraðamæli í 10 m hæð ásamt hita- og rakamæli í 2 m hæð, á Vattarnesi yst við Reyðarfjörð.

3. Setja upp sjálfvirka veðurstöð í hlíðinni upp af Teigagerði í um það bil 220 m hæð og mæla þar vindhraða og hita í 10 m mastri.

4. Setja upp sjálfvirkan vindmæli á Kollaleiru þar sem mælt verði vindátt og vindhraði í 10 m hæð og skráð á 10 mín fresti.

Í sjálfvirku stöðvunum eru eftirfarandi mælingar skráðar á 10 mín fresti:

Vindátt og vindhraði: Skráð 10 mín. meðaltal ásamt staðalfrávikum mæligilda. Ennig skráð hæsta 3 sek vindhviða.

Lofthiti: Skráð 1 mín. meðaltal ásamt hæsta og lægsta gildi mínútumeðaltala.

Gögn verða send til Reykjavíkur í gegnum farsíma. Stefnt er að uppsetningu stöðvana í sumar.

5.2.2 Útreikningar á loftmengun

Módelreikningar verða byggðir á veðurgögnum frá Hrauni í Reyðarfirði fyrir tímabilið maí 1998 til maí 2000 til þess að fá eftirfarandi niðurstöður:

Brennisteinstvíoxíð:

Meðalgildi sólarhrings, 98% líkindalínur dregnar

Ársmeðaltal

Vetrarmeðaltal (1.okt.-31.mars)

Flúor: Meðalgildi sólarhrings

Meðaltal yfir gróðurtímann (6 mán.)

Svifryk: Meðalgildi sólarhrings, 98% líkindalínur dregnar

Ársmeðaltal

Vetrarmeðaltal (1.okt.-31.mars)

PAH: Ársmeðaltal

Ef krafa kemur frá Hollustuvernd ríkisins vegna fyrirhugaðra samþykkta Evrópusambandsins verða gerðir eftirfarandi reikningar, byggðir á sömu veðurgögnum:

Brennisteinstvíoxíð:

Meðal klukkustundargildi, 99,7% líkindalínur dregnar.

Meðalgildi sólarhrings, 99,2% líkindalínur dregnar.

Svifryk:

Meðalgildi sólarhrings, 90,4% líkindalínur dregnar.

Meðfylgjandi þessum útreikningum verður lýsing á aðferðafræði þeirra, m.a. hvernig veðurgögn eru notuð, hvernig landslag Reyðarfjarðar hefur áhrif á niðurstöður og hvernig líkindi og loftdreifingarstuðlar eru fundnir út.

Ofangreindir útreikningar verða gerðir fyrir 2 tilfelli:

· Álver með 240.000– 280.000 tonna ársframleiðslu (nákvæm stærð gefin upp síðar) ásamt steypuskála og rafskautaverksmiðju.

· Álver með 360.000 – 420.000 tonna ársframleiðslu (nákvæm stærð gefin upp síðar) ásamt steypuskála og rafskautaverksmiðju.

Með tilliti til sérstakra veðurskilyrða í Reyðarfirði sem geta haft áhrif á loftgæði í firðinum, verða gerðar eftirfarandi rannsóknir:

· Gerð líkans af hugsanlegri uppsöfnun mengunarefna vegna hringrásar lofts eða hægviðristímabila í firðinum ásamt útskýringum á aðferðafræði.

· Greining á niðurstöðum líkanreikninga með tilliti til stöðugleika lofts og tíðni og myndun hitahvarfa í firðinum.

Niðurstöður munu væntanlega liggja fyrir haustið 2000.

5.2.3 Lífríki sjávar

Frekari rannsóknir á lífríki sjávar í Reyðarfirði eru eftirfarandi:

1. Lýsing á náttúrufari sjávar í innri Reyðarfirði

2. Ákvörðun á viðmiðunargildum (,,baseline") fyrir styrk PAH og samfélagsgerð botndýra.

Áætlað er að hefja þessar rannsóknir sumarið 2000.

5.2.4 Straum- og mengunarreikningar í Reyðarfirði og Eskifirði

Gerðir verða ítarlegir útreikningar á straumum í Reyðarfirði þar sem tillit verður tekið til hugsanlegrar lagskiptingu sjávar. Við rannsóknina verður beitt þrívíðum reiknilíkönum fyrir sjávarstrauma og sjávarmengun en helstu gögn fyrir líkanagerðina eru staðsetning útrása, dýptarkort, straum- og sjávarfallamælingar, hita- og seltumælingar, veðurgögn o.fl.

Með þessum rannsóknum á að vera hægt að varpa ljósi á dreifingu mengunar frá útrásum sveitarfélaganna og álvers, og gera næmniathugun með straum- og mengunarlíkani til að líkja eftir versta ástandi sem myndast getur við lagskiptingu sjávar.

5.2.5 Lífríki Sléttuár

Gerðar verða rannsóknir á lífríki Sléttuár með tilliti til fyrirhugaðrar efnistöku á áreyrum hennar. Til að fá heildstæða mynd af svæðinu mun Norðurá, norður af Sléttuá, einnig verða könnuð. Búsvæði ánna verða kortlögð með tilliti til uppeldisskilyrða bleikju. Einnig verður botndýralíf ánna rannsakað sem og seiðabúskapur en við það verða notaðar rafveiðar. Að lokum verður leiðni og sýrustig mælt vítt og breitt um vatnakerfið. Áætlað er að hefja rannsóknir nú í sumar.

5.2.6 Vatnafar og rennslismælingar

Rennslismælingar verða gerðar sumarið 2000 í eftirfarandi vatnsföllum á svæðinu:

Sléttuá, Norðurá, Geithúsá, Njörvadalsá, Búðará og Hrútá. Rennslismælar verða notaðir við verkið og staðsetning mælinganna skráð inn á GPS tæki til seinni tíma viðmiðunar. Eftir mælingarnar verður m.a.a hægt að meta betur ferksvatnsinnstreymi til fjarðarins og þar af leiðandi hugsanleg áhrif þess á strauma og vatnsskipti í firðinum.

5.2.7 Rannsóknir á förgun kerbrota

Eins og áður hefur komið fram fer fram um þessar mundir rannsóknarverkefni í Noregi um kerbrot og urðun þeirra. Niðurstöðum þessara rannsókna verða gerð skil í matskýrslu.

5.2.8 Félagslegar rannsóknir

Líkur eru á að samfélagsleg og þjóðhagsleg áhrif álvers og Kárahnjúkavirkjunar verði metin sameiginlega og verði þá sem sjálfstæð skýrsla eða sem kafli í annarri hvorri eða báðum matsskýrslunum. Þetta er mikilvægt til að ná sem bestri heildarmynd af sameiginlegum áhrifum þessara framkvæmda á samfélag og atvinnulíf.

Nokkrar forsendur hafa breyst frá fyrri athugunum. T.d. ákvörðun um jarðgöng milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar, heilsársvegur milli Akureyrar og Austurlands og búið er að sameina allar heilbrigðisstofnanir á svæðinu. Einnig er áhrifasvæði framkvæmdana orðið stærra með tilkomu áætlunar um Kárahnjúkavirkjunar.

Til að meta jákvæð og neikvæð áhrif vegna byggingar álvers verður rannsakað betur hvað felst í jákvæðum áhrifum á byggðir á Austurlandi og þá sérstaklega utan Mið-Austurlands. Rannsökuð verða varanleg áhrif á fólksfjöldaþróun og áhrif á vinnuafl í þeim atvinnuvegum sem eru á svæðinu. Einnig þarf að athuga fjárfestingar í grunngerð á svæðinu, áhrif framkvæmdana á ferðamennsku, grunnupplýsingar um húsnæðismál á svæðinu og skoða vel hvar byggð tengd virkjuninni verður í framtíðinni.

5.2.9 Skipulag

Aðalskipulag verður gert fyrir iðnaðarlóðina að Hrauni á þessu ári af sveitarfélaginu og í framhaldi af því, í tengslum við framkvæmdaleyfi og starfsleyfi, verður gert deiliskipulag fyrir svæðið.

6 KYNNINGAR OG SAMRÁÐ

6.1 Matsáætlun

Tillaga að matsáætlun verður kynnt umsagnaraðilum og almenningi og samráð haft við Skipulagsstofnun. Tillaga að matsáætlun hefur verið send til eftirfarandi umsagnaraðila:

Byggðastofnun

Bændasamtök Íslands

Ferðamálaráð Íslands

Fjarðabyggð

Hafrannsóknarstofnun

Heilbrigðiseftirlit Austurlands

Hollustuvernd ríkisins

Landvernd

Náttúruvernd ríkisins

Náttúruverndarsamtök Austurlands

Náttúruverndarsamtök Íslands

Siglingastofnun

Umhverfisverndarsamtök Íslands

Veðurstofa Íslands

Veiðimálstjóri/Veiðimálastofnun

Þjóðminjasafn Íslands

Í endanlegri matsáætlun verður fjallað um helstu niðurstöður umsagnaraðila og niðurstöðum kynningar með almenningi.

6.2 Matsskýrsla

Haldin verður málstofa í september þar sem umsagnaraðilar setjast niður og ræða framkvæmdina ásamt þeim aðilum sem standa að verkinu. Á komandi hausti verður síðan matsskýrslan kynnt fyrir almenningi.

6.3 Heimasíða

Sett verður upp vefsíða Reyðaráls hf. þar sem matsskýrslan verður kynnt ásamt öllum nauðsynlegum upplýsingum sem að verkefninu lúta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert