Nýjar áætlanir gera ráð fyrir meiri álframleiðslu og aukinni orkuþörf

Frá upplýsingafundi Reyðaráls í gærkvöldi. Geir A. Gunnlaugsson er lengst …

Frá upplýsingafundi Reyðaráls í gærkvöldi. Geir A. Gunnlaugsson er lengst til hægri.
mbl.is

Vegna tækniframfara sem vænta má á næstu árum verður framleiðslugeta fyrirhugaðs álvers í Reyðarfirði 280 þúsund tonn í fyrsta áfanga í stað 240 þúsund tonna, og 420 þúsund tonn í stað 360 þúsund tonna í öðrum áfanga, samkvæmt nýjum áætlunum Reyðaráls. Vegna framleiðslaaukningarinnar þarf rúmlega 15% meiri orku, og Kárahnjúkavirkjun mun ekki duga til þess að mæta þörfinni.

Geir A. Gunnlaugsson, stjórnarformaður Reyðaráls, segir að nýir útreikningar, byggðir á væntanlegum tækniframförum til ársins 2006, þegar gert er ráð fyrir að álverið taki til starfa, sýni að hægt verði að framleiða meira ál í verksmiðju af þeirri stærð sem gert hefur verið ráð fyrir. Framleiðsluaukningin krefst ekki stækkunar verksmiðjunnar eða fjölgunar starfsfólks, en orkuþörfin eykst. Reiknað hafði verið með því að Kárahnúkavirkjun með vatni úr Jökulsá á Dal myndi duga fyrir fyrsta áfanga verksmiðjunnar, og með því að bæta vatni úr Jökulsá á Fljótsdal við yrði orkuframleiðslan nægileg fyrir annan áfanga álversins. Geir segir að til að mæta þeirri framleiðsluaukningu sem nú er möguleg þyrfti nýja virkjun, til dæmis í Bjarnaflagi eða í Kröflu. Geir segir að Reyðarál geri aukið framboð á orku í samræmi við nýjar áætlanir ekki að skilyrði fyrir því að reisa álverið, en ef miðað verði við fyrri framleiðsluáætlanir verði líklega ekki þörf fyrir eins stóra verksmiðju og jafn margt starfsfólk og rætt hefur verið um. Hann segir að engar viðræður hafi enn farið fram við Landsvirkjun um málið. Samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun í morgun sat framkvæmdastjórn fyrirtækisins þá á fundi um nýjar áætlanir Reyðaráls.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert