Fallist á Fljótsdalslínu 3 og 4 með skilyrðum

Skipulagsstjóri ríkisins hefur fallist á fyrirhugaða lagningu Fljótsdalslínu 3 og 4 frá Fljótsdal til Reyðarfjarðar með nokkrum skilyrðum. Er m.a. gerð krafa um að Kröflulína 2 verði flutt og lögð suður eftir Fljótsdalsheiði, fram af Teigsbjargi að tengivirki virkjunar í Fljótsdal og þaðan í jörð að Brattagerði eigi síðar en árið 2006. Er þetta í samræmi við áform framkvæmdaðila, eins og þeim er lýst í frummatsskýrslunni.

Þá er gerð krafa um að staðsetningu Fljótsdalslína 3 og 4 í Fljótsdal og yfir Gilsárgil verði hagað þannig að hún valdi sem minnstum sjónrænum áhrifum. Tryggt verði að tilfærsla Fljótsdalslínu 4 verði þannig að línan raski ekki Nykurtjörn og nánasta umhverfi hennar. Þá er það skilyrði sett að náið samráð verði haft við Náttúruvernd ríkisins um endanlega legu vegslóða og línumastra, efnistöku og frágang að framkvæmdum loknum. Einnig er það skilyrði sett að haft verði samráð við Náttúrufræðistofnun Íslands um tilhögun framkvæmda við hreiður fálka á varptíma. Loks er sett það skilyrði að ljúka skuli fornleifakönnun á áhrifasvæði framkvæmdarinnar að höfðu samráði við Þjóðminjasafn Íslands. Hægt er að kæra úrskurð skipulagsstjóra til umhverfisráðherra og er kærufrestur til 5. júlí 2000. Úrskurður skipulagsstjóra
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert