Stefnt að undirritun yfirlýsingar í þessum mánuði

STEFNT er að því að ganga frá nýrri yfirlýsingu vegna byggingar álvers á Reyðarfirði í þessum mánuði og eru nú staddir hér á landi aðilar úr framkvæmdastjórn Hydro Aluminium til undirbúnings þess, meðal annars.

Í yfirlýsingunni verður, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins, útlistað hvernig staðið verður að undirbúningi og ákvarðanatöku vegna byggingar 240-360 þúsund tonna álvers á Reyðarfirði í stað þess 120 þúsund tonna álvers sem stefnt var að áður að byggja, en eins og kunnugt er var horfið frá byggingu þess fyrr í vor þar sem stærð þess þótti ekki nógu hagkvæm.

Vegna byggingar þess álvers var undirrituð yfirlýsing á Hallormsstað snemma sumars í fyrra þar sem kveðið var á um hvernig staðið yrði að undirbúningi framkvæmda og einstaka þættir í því ferli tímasettir.

Einstaka þættir ekki tímasettir jafn nákvæmlega

Sú yfirlýsing sem stefnt er að að undirrita nú í maímánuði yrði sambærileg nema hvað ólíklegt er að einstaka þættir í ákvörðunarferlinu verði tímasettir jafn nákvæmlega og var í yfirlýsingunni sem undirrituð var á Hallormsstað. Í yfirlýsingunni nú yrðu tilgreindir þeir þættir sem liggja þurfa fyrir áður en ákvörðun er tekin og þeirri ákvörðun jafnframt sett tímamörk, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins.

Ljóst er að undirbúningur að byggingu stærra álvers verður mun tímafrekari en undirbúningur að byggingu 120 þúsund tonna álvers, þar sem ráðast þarf í virkjanir sem senda þarf í umhverfismat áður en framkvæmdir við þær geta hafist og sama gildir um verksmiðjuna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert