Skotinn á leikskólalóð

Annað mánudagskvöldið í röð var skotárás gerð í Ósló og …
Annað mánudagskvöldið í röð var skotárás gerð í Ósló og eru bæði fórnarlömb árásanna undir tvítugu. Enginn hefur verið handtekinn vegna málsins sem upp kom í gærkvöldi. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Enginn liggur enn sem komið er undir grun lögreglunnar í Ósló í Noregi eftir að átján ára gamall maður varð fyrir skoti við leikskóla á Holmlia á tíunda tímanum í gærkvöldi að norskum tíma.

Hafði lögregla uppi mikinn viðbúnað eftir að henni barst tilkynning um særðan mann inni á leikskólalóðinni. Var maðurinn með meðvitund er lögregla kom á vettvang eftir því sem Øyvind Schalla-Aasen vettvangsstjóri greinir norska ríkisútvarpinu NRK frá.

Lögregla rannsakar málið sem tilraun til manndráps að sögn Benedicte Malling ákærusviðsfulltrúa en sá sem misgert var við er á batavegi. Sár hans voru í fyrstu talin alvarleg en reyndust minni háttar er betur var að gáð á Ullevål-sjúkrahúsinu.

Þyrlu beitt við leitina

Tæknideild lögreglu var enn við rannsóknir á lóð leikskólans í morgun og mætti foreldrum, er þangað komu með börn sín, tilkynning um að útisvæði skólans væri lokað og var fólk beðið að fara með börn sín rakleiðis inn.

Leit lögreglu að árásarmanni eða -mönnum stóð í alla nótt og beitti lögregla þyrlu og fjölda bifreiða við vinnu sína. Vill lögregla ekki tjá sig um hvað búa kann að baki skotárásinni en ekki er meira en vika liðin síðan annar ungur maður var særður skotsárum á Bryn í Ósló á mánudaginn í síðustu viku og handtók lögregla þá fjóra grunaða árásarmenn daginn eftir.

NRK

VG

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka