Björguðu barni úr móðurkviði eftir loftárás

Föðuramma barnsins hefur heitið því að hugsa um það.
Föðuramma barnsins hefur heitið því að hugsa um það. AFP/Mohammed Abed

Heilbrigðisstarfsfólki Emirati-spítalans í borginni Rafah á Gasaströndinni tókst að bjarga lífi barns með keisaraskurði, eftir að móðir barnsins hlaut banvæna áverka af loftárásum Ísraelshers.

Móðirin var komin sjö og hálfan mánuð á leið með barnið.

BBC greinir frá.

Var flutt alvarlega særð á sjúkrahúsið

Loftárásir Ísraelshers hæfðu heimili al-Sakani fjölskyldunnar þann 20. apríl með þeim afleiðingum að móðir barnsins, Sabreen, hlaut banvæna áverka.

Eiginmaður hennar og þriggja ára dóttir þeirra létu lífið í árásinni. 

Þó ekki hafi tekist að bjarga lífi móðurinnar tókst læknum að halda lífi í barninu sem fæddist þó með mikla öndunarerfiðleika. 

Læknar merktu barnið með límmiða þar sem þeir skrifuðu „barn píslarvottsins Sabreen al-Sakani“ áður en þeir lögðu það í hitakassa. 

Nefnd í höfuð móður sinnar

Yfirmaður á fæðingardeild Emirati-spítalans, Mohammed Salama, segir barnið á batavegi en þó enn í lífshættu. Hann gerir ráð fyrir því að barnið verði á spítalanum í mánuð til viðbótar. 

Fjölskyldan hefur ákveðið að nefna barnið í höfuðið á Sabreen og föðuramma barnsins hefur heitið því að hugsa um það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka