Kossinn gæti komið Rubiales á bak við lás og slá

Luis Rubiales gæti átt fangelsisvist yfir höfði sér.
Luis Rubiales gæti átt fangelsisvist yfir höfði sér. AFP/Franck Fife

Saksóknari á Spáni krefst tveggja og hálfs árs dóms yfir Luis Rubiales, fyrrum formanni spænska knattspyrnusambandsins.

Rubiales vakti mikla hneykslan eftir að hann kyssti Jennifer Hermoso, leikmann spænska kvennalandsliðsins, beint á munninn í kjölfar þess að liðið tryggði sér heimsmeistaratitilinn í knattspyrnu.

Athæfið framkvæmdi Rubiales í beinni útsendingu eftir úrslitaleik Spánverja og Englendinga þann 20. ágúst á síðasta ári.  Þar mátti sjá Rubiales grípa um höfuð Hermoso áður en hann kyssti hana á munninn. Rubiales sagði að kossinn hefði verið með samþykki beggja en hin 33 ára Hermoso tók ekki í sama streng. 

Hermoso segir að hún hafi verið hvött til þagmælsku á heimleið frá Ástralíu þar sem keppnin var haldin og eftir að heim var komið. Hún lét slíkan þrýsting þó ekki á sig fá og kærði Rubiales.

Hermoso er sögð hafa brotnað niður í kjölfar atviksins sem sagt er hafa borið skugga á gleðina af sigri í heimsmeistarakeppninni.

Samkvæmt spænskum lögum getur óvelkominn koss flokkast sem kynferðisleg áreitni. Viðurlögin við broti af þessu tagi eru allt að þriggja ára fangelsisvist.

Krafa saksóknara er sú að hinn 46 ára gamli Rubiales verji einu ári á bak við lás og slá og verði í eitt og hálft ár á skilorði.

Þá vill saksóknari að Rubiales greiði Hermoso 50 þúsund evrur eða því sem nemur rúmum 7,5 milljónum króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert