Boeing rannsakar annan galla: Lagfæra tugi véla

Skrifstofur Boeing á alþjóðaflugvellinum í Los Angeles.
Skrifstofur Boeing á alþjóðaflugvellinum í Los Angeles. AFP/Patrick T. Fallon

Flugvélaframleiðandinn Boeing ætlar að lagfæra tugi flugvéla af tegundinni 737 MAX eftir að göt sem höfðu verið boruð á rangan hátt fundust á skrokkum sumra vélanna.

Í minnisblaði til starfsmanna sagði yfirmaðurinn Stan Deal að götin hefðu ekki í för með sér aðsteðjandi öryggisvanda og að þau muni ekki hafa áhrif á þær flugvélar sem eru í notkun, að því er Washington Post greindi frá. 

Fyrirtækið telur aftur á móti að það þurfi að lagfæra um 50 flugvélar sem eru enn á framleiðslustigi, að sögn Deal.

Það var starfsmaður hjá Spirit AeroSystems, fyrirtækis sem býr til flugvélaskrokkana, sem lét vita af götunum.

Rannsókn hófst í kjölfarið á málinu hjá Boeing.

Ekki er langt síðan hleri fauk af Boeing-flugvél Alaska Airlines í háloftunum. Bandarísk flugmálayfirvöld kyrrsettu yfir 100 Boeing 737 Max-vélar í kjölfarið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert