Trump sakar Biden um að liðsinna Hamas

Biden hefur hótað að aftra vopnaflutningum til Ísraels. Trump segir …
Biden hefur hótað að aftra vopnaflutningum til Ísraels. Trump segir hann þannig taka afstöðu með Hamas. AFP

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, sakar Joe Biden Bandaríkjaforseta um að vera með Hamas-hryðjuverkasamtökunum í liði.

Biden sagði í viðtali við CNN á miðvikudag að hann myndi aftra vopna­send­ing­um til Ísraels­manna ef þeir fylgdu hót­un­um sín­um eft­ir um að gera allsherjar innrás í Rafah á Gasaströndinni.

Trump telur að Biden sé með þessu að taka afstöðu með Hamas. 

Ísraelsmenn halda því fram að síðustu vígasveitir Hamas séu til húsa í Rafah og réðust þeir inn í austurhluta borgarinnar, þvert á varúðarorð Bandaríkjaforseta.

Tekur afstöðu með „róttækum múslimum“ við háskólana

„[Biden] tekur afstöðu með þessum hryðjuverkamönnum, rétt eins og hann hefur tekið afstöðu með róttæku múslimunum sem leggja háskólasvæðin okkar undir sig,“ skrifar Trump á samfélagsmiðlinum Truth Social. Hann vísar þar einnig til mótmæla sem stúdentar hafa efnt til vestanhafs í tengslum við stríðið á Gasaströndinni.

Trump sagði í samtali við fréttamenn í New York í gær, fyrir utan dómssalinn þar sem réttarhöld yfir honum standa yfir, að „það sem Biden er að gera gagnvart Ísrael er svívirðilegt“.

„Hann hefur algjörlega yfirgefið Ísrael og það trúir því enginn,“ sagði Trump, sem verður að öllum líkindum mótframbjóðandi Bidens í kosningunum í nóvember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert