Fær tveggja og hálfs árs dóm í plastbarkamáli

Paolo Macchiarini á blaðamannafundi í Stokkhólmi í dag.
Paolo Macchiarini á blaðamannafundi í Stokkhólmi í dag. AFP/Magnus Andersson

Áfrýjunardómstóll í Svíðþjóð hefur dæmt ítalska skurðlækninn Paolo Macchiarini í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir að græða plastbarka í þrjá sjúklinga á Karólínska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi.

Macchiarini var sakfelldur fyrir að hafa grætt plastbarka í tvo karlmenn og eina konu á árunum 2011 og 2012. Öll hlutu þau alvarlega fylgikvilla og létust.

Macchiarini var talinn hafa nýtt sér ástand sjúklinganna og mátti vera ljóst að þeir þyldu ekki slíkar aðgerðir. Sænska ríkisútvarpið greinir frá þessu.

Hann hefur frá upphafi neitað sök og að sögn verjanda hans verður málinu áfrýjað.

Hlaut áður skilorðsbundinn dóm

Á blaðamannafundi sem Macchiarini boðaði til í dag sagði hann að það að skaða sjúklinga viljandi væri versta ásökun á hendur læknis.

Macchiarini var í héraðsdómi í Svíþjóð í fyrra ákærður fyrir gróft ofbeldi gegn sjúklingunum þremur en sakfelldur í einum af þremur ákæruliðum í tengslum við aðgerðirnar. Hlaut hann skilorðsbundinn dóm.

Málinu var áfrýjað af bæði saksóknara og verjendum til áfrýjunardómstólsins sem nú hefur þyngt refsinguna og sakfellt hann í öllum þremur ákæruliðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert