Hagen leiddur fyrir dómara

Lögregla rannsakaði heimili Hagen-hjónanna í gær.
Lögregla rannsakaði heimili Hagen-hjónanna í gær. AFP

Norski kaupsýslumaðurinn Tom Hagen sem liggur undir grun um að hafa myrt eiginkonu sína eða látið myrða hana fyrir átján mánuðum verður leiddur fyrir dómara í héraðsdómi Nedre Romerike klukkan 12 í dag. Þar mun lögregla óska eftir því að hann verði úrskurðaður í gæsluvarðhald. 

Hagen neitar sök og samkvæmt frétt norska ríkisútvarpsins er ekki vitað hvaða gögn lögreglan mun leggja fram í héraðsdómi í dag. 

Tom Hagen.
Tom Hagen. AFP

Anne-Elisabeth Hagen hvarf 31. október 2018 og var ekki greint frá mannráninu fyrr en í janúar 2019. Í gær var eiginmaður hennar handtekinn grunaður um aðild að hvarfinu og manndrápi en lík hennar hefur aldrei fundist.

Lögmaður Hagen, Svein Holden, sagði í samtali við NRK í gærkvöldi að skjólstæðingur hans neiti því staðfastlega að hafa komið að morðinu en Holden ræddi við fréttamenn eftir að hafa hitt Hagen á Lillestrøm-lögreglustöðinni. 

Svein Holden lögmaður Tom Hagen við Lillestrøm-lögreglustöðina í gær.
Svein Holden lögmaður Tom Hagen við Lillestrøm-lögreglustöðina í gær. AFP

Holden segir að Hagen sé afar ósáttur við að vera sakaður um eitthvað sem hann hafi ekki gert.  

Norskir fjölmiðlar, þar á meðal VG sem greindi fyrst frá handtökunni í gær, birtu í gær upplýsingar um kaupmála hjónanna frá árinu 1987. Þar kemur fram að Anne-Elisabeth fengi jarðnæði, 200 þúsund norskar krónur og Citroën BX 14 RE bifreið eða sambærilega bifreið ef þau myndu skilja. Allar aðrar eignir myndu renna til eiginmannsins. Samkvæmt frétt VG telja lögfræðingar hjá lögreglunni að kaupmálinn hefði aldrei staðist skoðun fyrir dómi og hefði væntanlega verið ógiltur vegna þess hversu ósanngjarn hann væri. Það hefði þýtt að Anne-Elisabeth Hagen hefði fengið mun meira í sinn hlut af auðæfum fjölskyldunnar og er því velt upp hvort þetta geti verið ástæðan fyrir morðinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert