Brenndu líkneski af Grenfell-turninum

Það sem eftir er af Grenfell-turninum í vesturhluta Lundúna. Myndbandið …
Það sem eftir er af Grenfell-turninum í vesturhluta Lundúna. Myndbandið sem var birt á netinu, sýnir stórt líkneski merkt Grenfell-turninn með pappafígúrum í gluggunum brenna á bálkesti. AFP

Breska lögreglan hefur handtekið fimm menn vegna myndbands sem sýnir hóp hlæjandi fólks brenna líkan af Grenfell-turninum. Alls létust 72 þegar eldur kom upp í íbúðablokkinni í júní í fyrra og er það mannskæðasti eldsvoði sem upp hefur komið í Bretlandi frá því í heimsstyrjöldinni síðari.

Myndbandið sem var birt á netinu, sýnir stórt líkneski merkt Grenfell-turninn með pappafígúrum í gluggunum, sem brennt er á bálkesti og heyra má groddalegan hlátur í bakgrunni.

Í yfirlýsingu frá Scotland Yard segir að fimmmenningarnir, sem voru á aldrinum frá 19 ára upp í 55 ára hafi verið handteknir er þeir gáfu sig fram  á lögreglustöð í suðurhluta London í gær og að þeir séu nú í varðhaldi.

„Í myndbandinu má heyra fólk við brennuna segja: „Hjálpið mér! Hjálpið mér!“, „Hoppið út um gluggann!“ og „Þetta gerist þegar þeir borga ekki leigu.“

Grenfell United, samtök þeirra sem lifðu af brunann og þeirra sem misstu þar ástvini sögðu í Twitter-færslu að myndbandið væri „andstyggilegt“. „Það er ekki bara óþægilegt fyrir þá sem misstu ættingja, það sýnir hatur og dónaskap gagnvart öllum sem [bruninn] hafði áhrif á.“

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, sagði á Twitter myndbandið sýna vanvirðingu í garð þeirra sem létust í eldinum, sem og fjölskyldum þeirra og ástvinum. „Það er fullkomlega óásættanlegt,“ sagði May.

Stuard Cundy, lögreglustjóri sem fer með rannsókn á Grenfell-brunanum, sagði þá að sér blöskraði kaldlyndið sem myndbandið sýndi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert