„Við erum 500 kílómetrum frá okkar heimavelli“

Davíð Smári Lamude.
Davíð Smári Lamude. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

„Þetta var slakur leikur af okkar hálfu, sérstaklega fyrri hálfleikurinn,“ sagði Davíð Smári Lamude, þjálfari Vestra, í samtali við mbl.is eftir nauman sigur liðsins gegn HK í 4. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í Laugardalnum í dag.

Leiknum lauk með 1:0-sigri Vestra en það var Benedikt Warén sem skoraði sigurmark leiksins á 73. mínútu.

Bjóst við meiru af sínu liði

„Mér fannst við hægir og kærulausir og við vorum heppnir. Við fundum hins vegar leið til þess að ná í sigur og stundum snýst fótbolta einmitt um það, að finna leiðir til þess að ná í sigur og það gerðum við í dag.

Ég skal alveg viðurkenna það að ég bjóst við talsvert meiru frá liðinu mínu í dag þegar kemur að krafti og styrk.  Ég hefði viljað sjá okkur gera allt af meiri krafti en við fundum engu að síður leið sem ég er sáttur með,“ sagði Davíð Smári.

Tileinkaði stuðningsmönnunum sigurinn

Vestramenn, sem eru nýliðar í efstu deild, eru með 6 stig eftir fyrstu fjóra leiki og sitja sem stendur í sjöunda sætinu.

„Ég væri til í að vera aðeins sáttari með frammistöðuna hingað til og kraftinn í liðinu. Á sama tíma er ég mjög sáttur með það að ná í þrjú stig, þegar við erum ekki að spila nægilega vel, og það er það sem ég tek með mér út úr þessum leik í dag.“

Vestramenn vonast til þess að leika fyrsta heimaleik sinn á Ísafirði hinn 20. maí gegn Íslands- og bikarmeisturum Víkings úr Reykjavík.

„Við erum 500 kílómetrum frá okkar heimavelli og það eru stuðningsmennirnir sem draga okkur að landi í dag. Ég er þeim ótrúlega þakklátur að koma alla þessa leið til þess að styðja okkur. Þessi sigur er tileinkaður þeim, þeir drógu okkur yfir línuna,“ sagði Davíð Smári í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert