Bauð annarri konu í kafbátinn

Saksóknarinn Jakob Buch-Jepsen mætir til réttarhaldanna í Kaupmannahöfn.
Saksóknarinn Jakob Buch-Jepsen mætir til réttarhaldanna í Kaupmannahöfn. AFP

Tveimur dögum áður en Peter Madsen bauð sænsku blaðakonunni Kim Wall með sér í ferð í kafbátnum Nautilus sendi hann annarri konu skilaboð og bauð henni um borð. Fleiri konur sem borið hafa vitni við réttarhöldin yfir Madsen í dag segja sömu sögu.

„Hæ. Manstu eftir kafbátnum? Við ætluðum til Bornholm á föstudag en þeirri ferð hefur verið frestað. Við ætlum í styttri ferð. Viltu koma með?“

Þannig hljómuðu skilaboð sem Madsen sendi óvænt til konu sem hafði tveimur mánuðum áður verið á gangi eftir bryggjunni í Kaupmannahöfn þar sem kafbáturinn lá. Þar höfðu hún og vinkona hennar hitt Madsen og rætt stuttlega við hann. Hann bauð þeim um borð í bátinn og vildi í kjölfarið fá símanúmerin hjá þeim. Skömmu síðar fór hann að senda þeim SMS-skilaboð og einnig skilaboð í gegnum Facebook. Hann bauð þeim þá í sjóferð í Nautilus en ekkert var af henni.

Madsen hringdi svo í lok júlí í aðra konuna, þeirrar sem bar vitni í dag, en hún svaraði ekki símanum. Henni fannst undarlegt að hann væri að hringja í sig, tveimur mánuðum eftir að hún hafði verið á bryggjunni.

En þann 8. ágúst í fyrra sendi hann henni svo SMS-skilaboð og bauð henni aftur í ferð. 

„Mér fannst undarlegt að hann beindi þeim bara til mín því allan tímann höfðum ég og vinkona mín verið í samskiptum við hann,“ sagði konan við réttarhöldin í dag. Hún svaraði honum því að hún og vinkona sín kæmust ekki.

Peter Madsen hefur verið ákærður fyrir að drepa Kim Wall, sundurlima lík hennar og henda því svo í sjóinn.

Hann er 47 ára gamall og hefur verið áberandi í fjölmiðlum um árabil. Gert er ráð fyrir að dómur í málinu falli þann 25. apríl.

Frétt Danska ríkisútvarpsins um réttarhöldin í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert