Fyrsta liðið farið í sumarfrí

Nassir Little, Devin Booker og Josh Okogie hjá Phoenix Suns …
Nassir Little, Devin Booker og Josh Okogie hjá Phoenix Suns reyna að stöðva Anthony Edwards hjá Minnesota Timberwolves í fjórða leiknum í nótt. Það gekk ekki vel. AFP/Christian Petersen

Minnesota Timberwolves varð í nótt fyrsta liðið til að tryggja sér sigur í sínu einvígi í fyrstu umferð úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfuknattleik.

Minnesota vann Phoenix á útivelli, 122:116, og sópaði þar með andstæðingum sínum út úr átta liða úrslitum Vesturdeildarinnar því einvígi liðanna endaði 4:0.

Þá náði Indiana Pacers góðri forystu gegn Milwaukee Bucks, 3:1, með því að vinna fjórða leik liðanna á sínum heimavelli i Indianapolis, 126:113. Það er áhugaverð staða því Milwaukee endaði í þriðja sæti Austurdeildar en Indiana í sjötta sæti. Hins vegar skildu aðeins tveir sigurleikir liðin að í jafnri keppni.

Indiana skoraði flest stig allra liða í NBA-deildinni í vetur, var eina liðið sem fór yfir tíu þúsund stig. Myles Turner skoraði 29 stig í nótt og Tyrese Hailburton 24 en sex leikmenn skoruðu þrettán stig eða fleiri fyrir liðið.

Þrír leikmenn báru uppi lið Milwaukee, Brook Lopez skoraði 27 stig, Khris Middleton 25 og Malik Beasley 20.

Í Arizona var Anthony Edwards í aðalhlutverki hjá Minnesota, eina ferðina enn, og hann skoraði 40 stig í leiknum en Karl-Anthony Towns skoraði 28 og Jaden McDaniels 18.

Hjá Phoenix sáu tveir leikmenn nánast um allt því Devin Booker skoraði 49 stig og Kevin Durant 33.

Minnesota mætir annaðhvort Denver Nuggets eða Los Angeles Lakers í undanúrslitum Vesturdeildar en þar er staðan 3:1 fyrir NBA-meistarana í Denver.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert