Árásarmaður hrósar Parkland-nemendum

Blóm til minningar um þá sem létust í árásinni í …
Blóm til minningar um þá sem létust í árásinni í Marjory Stoneman Douglas-framhaldsskólanum í Parkland. AFP

Maður sem dæmdur var fyrir skotárás í skóla hrósar þeim sem lifðu af árásina í skólanum í Parkland í Flórída fyrir að berjast fyrir hertri byssulöggjöf í landinu. 

Jon Romano var sextán ára er hann gekk inn í menntaskólann sinn í New York árið 2004 og hóf að skjóta. Hann var yfirbugaður af skólastjóranum áður en honum tókst að drepa nokkurn mann. Romano fékk nú birt bréf í dagblaði Times Union þar sem hann hrósar nemendunum í Parkland fyrir hugrekki og innblástur. Frá því að skotárásin var gerð í Parkland hafa fjölmargir nemendur tekið sig saman og þrýst á að vopnalöggjöfin verði hert. Sautján létust í árásinni. 

Einn kennari særðist í árás Romano og var hann því dæmdur í fangelsi fyrir morðtilraun. Hann er nú þrítugur. Hann er enn í fangelsi. Hann segir skólastjórann sem yfirbugaði hann vera hetju sem hann eigi líf sitt að launa. 

Skólastjórinn segir í viðtali við blaðið að ef Romano hefði haft AR-15-riffil, líkt og árásarmaðurinn í Parkland, hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum. 

Frétt BBC um málið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert