Frekar ímyndun en bók

Draumur þeirra sem elska bækur virðist rætast á kínversku bókasafni þar sem bókahillurnar bylgjast frá gólfi upp í loft. En ef þú lest á milli línanna þá áttar þú þig á því að það vantar eitthvað. Bóksafn sem snýst meira um ímyndun en bók.

Bækurnar í efri hillum bókasafnsins eru nefnilega í flestum tilvikum myndir sem eru prentaðar á álplötur sem mynda bak bókahillnanna.

Myndir af rennilegu bókasafni, Tianjin Binhai, hafa farið víða á samfélagsmiðlum í Kína og annars staðar en safnið var opnað í síðasta mánuði. Fyrirsagnir margra miðla eru: „Heimsins besta bókasafn“ og „Draumur bókaormsins“. Um helgar koma yfirleitt um 15 þúsund manns á bókasafnið sem er á sex hæðum í hafnarborginni Tianjin.

Hollenska arkitektastofan MVRDV á heiðurinn að hönnuninni en byggingin lítur út eins og auga þegar horft er á hana úr garðinum fyrir utan. Garðurinn er að vísu ekki tilbúinn en það þykir mikið sjónarspil að horfa á safnið með lithimnu augans í miðjunni.

Alls eru bækurnar á safninu 200 þúsund talsins en stefnt er að því að þær verði alls 1,2 milljónir talsins. Það hefur hins vegar  komið ýmsum á óvart þegar þeir uppgötva brelluna í efri hillum augans. En flestar bækur safnsins eru í hefðbundnum bókahillum í öðrum rýmum safnsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert