ESB hvetur til friðsamlegrar lausnar

Evrópusambandið hefur hvatt til þess að friðsamleg lausn náist í Simbabve eftir að herinn tók yfir stjórn landsins.

Svo virðist sem völd Mugabe, sem er 93 ára, hafi veikst eftir að herinn setti upp vegatálma í kringum þinghús Simbabve. Hershöfðingjar segja samt sem áður að ekki sé um valdarán að ræða.

„Evrópusambandið hefur áhyggjur af stöðu mála,” sagði Catherine Ray, talsmaður Evrópuráðsins.

„Við hvetjum alla sem koma að þessu til að hefja viðræður með friðsamlega úrlausn að leiðarljósi,” sagði hún.

Robert Mugabe heldur ræðu í byrjun þessa mánaðar.
Robert Mugabe heldur ræðu í byrjun þessa mánaðar. AFP

Mugabe og eiginkonan hans Grace eru á meðal háttsetts fólks í Simbabve sem hefur verið beitt refsiaðgerðum af Evrópusambandinu, bæði með frystingu eigna og ferðabanni.

Evrópusambandið beitti fyrst refsiaðgerðum gegn Simbabve árið 2002 vegna stöðu mannréttindamála í landinu.

Mugabe hefur sagt refsiaðgerðir ESB og Bandaríkjanna vera „rangar”. Á síðasta ári kenndi hann þeim um að ríkisstjórn landsins gæti ekki greitt starfsmönnum sínum á réttum tíma. Það leiddi til verkfalls í landinu.



Robert Mugabe kyssir eiginkonu sína Grace.
Robert Mugabe kyssir eiginkonu sína Grace. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert