„Höfðu Guam í huga“

Varnarmálaráðherra Japans segist telja að stjórnvöld í Norður-Kóreu hafi haft Guam í huga þegar eldflaug var skotið yfir Japan seint í gærkvöldi. Hann segir að hafi verið nægjanlega langdræg til þess að hæfa Guam sem er bandarískt yfirráðasvæði.

Stjórnvöld í N-Kóreu hafa hótað því að skjóta á Guam og hefur forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, varað við því að ef það verði gert þá verði svarað af fullum þunga.

Itsunori Onodera, varnarmálaráðherra Japans, sagði fréttamönnum að flaugin sem flaug 3.700 km hafi getað hæft Guam sem er í 3.400 km fjarlægð frá N-Kóreu.

„Við getum ekki fullyrt um hver ásetningur Norður-Kóreu var en að teknu tilliti til þess sem hefur verið sagt þá held ég að Guam hafi verið í huga þeirra,“ sagði Onodera við fréttamenn í morgun.

Hann varaði við því að búast megi við fleiri slíkum aðgerðum af hálfu N-Kóreu á næstunni. Enda hafa stjórnvöld í Pyongyang hótað því að svara hertum refsiaðgerðum Sameinuðu þjóðanna með aukinni hergagnaframleiðslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka