Tveggja ára drengur meðal látnu

Grenfell-háhýsið í London brann til kaldra kola þann 14. júní.
Grenfell-háhýsið í London brann til kaldra kola þann 14. júní. AFP

Tveggja ára gamall drengur, Jeremiah Deen, er meðal fórnarlambanna sem létust í brunanum Grenfell-turni í London og borin hafa verið kennsl á. Jeremiah litli bjó í íbúð á 14. hæð háhýsisins ásamt móður sinni Zainab Deenn sem einnig lést í eldsvoðanum 14. júní síðastliðinn.

Drengurinn er 45. fórnarlamb eldsvoðans sem hefur verið nafngreint en minnst 80 manns eru taldir hafa látið lífið.. Fjölskylda þeirra Jeremiah og Zainab segir þau munu „lifa í hjörtum sínum að eilífu.“

Eitt fórnarlamb fæddist andvana

Þá hefur drengur, sem fæddist andvana á sjúkrahúsi þann 14. júní og var gefið nafnið Logan Gomes, einnig verið skráður meðal fórnarlamba eldsvoðans í bókum lögreglu.

„Við viljum lýsa yfir einlægu þakklæti okkar til allra aðstandenda og vina fyrir bænir þeirra, blóm og samhug á þessum erfiðu tímum,“ segja foreldrar Zainab Deen í yfirlýsingu sem þau sendu frá sér um dauðsfall dóttur sinnar og barnabarns.

„Jarðarför þeirra verður auglýst síðar þar sem nú er verið að skipuleggja för mæðginanna til sinnar hinstu hvílu,“ segir ennfremur í tilkynningunni. „Þið voruð skamma stund í fangi okkar en munið lifa að eilífu í hjörtum okkar.“

Þá greindi lögreglan í London einnig frá því í gær að hin 12 ára gamla Jessica Urbano Ramirez og hin 35 ára gamla Nura Jemal hefðu verið meðal látnu.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka