Endurgreiða 669 stöðumælasektir

.
.

Borgaryfirvöld í Árósum þurfa að endurgreiða bílaeigendum rúmar 341 þúsund danskar krónur, sem svarar til rúmlega fimm milljóna íslenskra króna, sem þeir voru látnir greiða í stöðumælasektir. Alls voru sektirnar 669 talsins og allar í sama hverfi. Staðfest hefur verið að um mistök hafi verið að ræða hjá borgaryfirvöldum, samkvæmt frétt Politiken.

Svo virðist sem mistök hafi verið gerð þegar nýjar reglur varðandi bílastæði í Øgade-hverfinu voru innleiddar. Vegna mistakanna er borgaryfirvöldum gert að endurgreiða 669 sektir.

Kim Gulvad Svendsen, yfirmaður tækni- og umhverfissviðs Árósa, segir að þau hafi gert fáránleg mistök og beðist er afsökunar á því. Ráðstafanir hafa verið gerðar til þess að tryggja að þetta gerist ekki aftur.

Tilgangurinn með breytingunum á bílastæðamálum hverfisins var að búa til fleiri bílastæði fyrir þá sem búa í hverfinu en það er stutt frá miðborginni. Voru því þeir sem ekki búa í hverfinu rukkaðir um stöðugjöld. Ekki hafði þó verið leitað eftir samþykki lögreglunnar á þessum breytingum og því verða öll stöðugjöldin endurgreidd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert