Afsalaði sér öllu valdi

Jon Bon Jovi lítur yfir farinn veg í heimildarmyndaflokknum.
Jon Bon Jovi lítur yfir farinn veg í heimildarmyndaflokknum. AFP/Robyn Beck

Jon Bon Jovi, leiðtogi og söngvari rokkbandsins Bon Jovi, upplýsti í viðtali við útvarpsstöðina WDHA í heimaríkinu New Jersey á dögunum að sköpunarlega væri væntanlegur heimildarmyndaflokkur um feril bandsins, Thank you, Goodnight: The Bon Jovi Story, ekki í hans höndum.

„Það var hluti af samkomulaginu við leikstjórann. Hann átti að hafa fulla stjórn og ég afsalaði mér öllu valdi. Ég kann að meta verk hans, samstarfsfólk og þekki til fjölskyldu hans,“ sagði Bon Jovi en Gotham Chopra er sonur rithöfundarins og andlega leiðtogans Deepaks Chopras.

Bon Jovi kvaðst ekki hafa verið að leita eftir „Behind the Music“-tilfinningunni og vísaði þar í heimildarmyndir sem tónlistarstöðin VH1 hefur gert. „Þetta er sannleikur okkar allra. Þeir einu sem taka til máls og eiga ekki aðild að stofnuninni eru Bruce [Springsteen] og Southside [Johnny] og það er vitaskuld vegna áhrifa þeirra á okkur öll í New Jersey og mig persónulega. Reyndar koma þeir bara fyrir í svipinn í fyrsta þættinum til þess að gefa tóninn, þannig lagað séð. Einn af mínum nánustu vinum í æsku, [Dave] „Snake“ Sabo [úr Skid Row], kemur ekki við sögu. Þannig að þeir sem ekki hafa verið í bandinu voru ekki gjaldgengir. Þetta er bara sannleikur þeirra sem eru hluti af sögunni. Menn urðu að segja sannleikann – og það er sannleikur okkar allra. Ekki bara minn.“

Raunar fer Bon Jovi ekki alveg með rétt mál þarna, Snáka-Sabo var í korter í bandinu í blábyrjun, áður en Richie Sambora leysti hann af á gítar. Um það eru alltént til gögn. En kannski er gamli maðurinn búinn að gleyma því – enda orðinn 62 ára.

 

Þú kallar þig ekki Worm

Fræg er sagan af því hvernig Snáksnafnið varð til. Sabo er tveimur árum yngri en Bon Jovi og leit að vonum upp til vinar síns. Þegar hann var að stofna Skid Row kom hann að máli við Bon Jovi og bar undir hann listamannsnafn sem honum sjálfum þótti algjör negla – Worm. „Nei, nei, nei,“ flýtti Bon Jovi sér að segja. „Þú kallar þig ekki Worm, þú kallar þig Snake!“ Þar með var það ákveðið.

​Tico Torres, Riche Sambora, Jon Bon Jovi og David Bryan …
​Tico Torres, Riche Sambora, Jon Bon Jovi og David Bryan á verðlaunahátíð árið 2000. AFP/Scott Nelson


Í útvarpsviðtalinu kvaðst Bon Jovi hafa góða tilfinningu fyrir efninu, í það minnsta þeim bútum sem hann hefur séð. „Það eru tilfinningaþrungin augnablik út í gegn, að ég held fyrir okkur alla. Við sem erum í bandinu í dag komum saman síðasta sumar til að horfa á klippur og okkur leist öllum vel á hvernig þetta hefur þróast. Ég sýndi Richie [Sambora, sem hætti í bandinu fyrir um áratug] líka þrjá af þáttunum fjórum seint í ágúst. Síðan hef ég ekki séð neitt. Núna er þetta víst klárt en ég hef ekkert um það að segja. Veit satt best að segja ekki neitt.“

Í bandinu eru í dag, auk Bon Jovis, hljómborðsleikarinn David Bryan og trymbillinn Tico Torres, sem hafa verið með frá upphafi, gítarleikarinn Phil X og bassaleikarinn Hugh McDonald. Sambora hætti 2013 og upprunalegi bassaleikarinn, Alec John Such, 1994. Hann lést fyrir tveimur árum.

Nánar er fjallað um nýju Thank You, Goodnight og Bon Jovi í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Dagurinn í dag er kjörinn til þess að taka ákvarðanir varðandi íbúðakaup. Hafðu trú á getu þinni til að skapa.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Dagurinn í dag er kjörinn til þess að taka ákvarðanir varðandi íbúðakaup. Hafðu trú á getu þinni til að skapa.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson