„Loksins rættist draumurinn“

Nemendur og kennarar í Vogaskóla ásamt Ásmundi Einari Daðasyni mennta- …
Nemendur og kennarar í Vogaskóla ásamt Ásmundi Einari Daðasyni mennta- og barnamálaráðherra, Kristínu Lúðvíksdóttir, verkefnastjóra Fjármálavits og Heiðrúnu Jónsdóttur, framkvæmdastjóra SFF. Ljósmynd/Aðsend

Vogaskóli fór með sigur af hólmi í Fjármálaleikunum, árlegri landskeppni grunnskóla í fjármálalæsi. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, afhenti nemendum skólans verðlaun fyrir fyrsta sætið í Vogaskóla á miðvikudaginn. 

Metþátttaka var í Fjármálaleikunum í ár en 1.800 nemendur í 55 grunnskólum víðs vegar á landinu tóku þátt í keppninni sem haldin var í sjöunda sinn dagana 1.-12. mars. Vogaskóli mun senda tvo fulltrúa í Evrópukeppnina í fjármálalæsi sem haldin verður í Brussel 19. apríl næstkomandi. Þá hafa nemendur skólans ákveðið að gefa hluta af verðlaunafénu til góðgerðamála.

Austurbæjarskóli var í öðru sæti í keppninni í ár og Grunnskóli Fjallabyggðar í þriðja sæti en báðir skólar hafa áður farið með sigur af hólmi í Fjármálaleikunum.

Mikil metnaður hjá nemendum

Þær Rannveig Möller og Hafdís María Matsdóttir stærðfræðikennarar sigurvegaranna segja að árangurinn hafi meðal annars náðst með mikilli hvatningu og liðsheild. „Loksins rættist draumurinn. Við stærðfræðikennarar tíundu bekkja höfum verið með frá upphafi og tekið heila viku í að skapa stemningu og taka þátt í leikunum á hverju ári. Í ár var gríðarlegur metnaður,“ segir Rannveig.

„Við teljum ástæðuna fyrir góðu gengi skólans í Fjármálaleikunum undanfarin ár vera að í Vogaskóla leggjum við mikla áherslu persónuleg fjármál í stærðfræði. Við byrjum á tveggja mánaða fjármálakennslu í upphafi 10. bekkjar þar sem nemendur vinna með laun, tekjuskatt, lán, sparnað, skuldir og eignir og vinna hópverkefni sem felst í því að „búa til“ 27 ára manneskju, þar sem tiltaka þarf náms- starfsferil, námslán, finna þarf íbúð fyrir viðkomandi, reikna út námslán og húsnæðislán ásamt því að skoða hve stór hluti af heildarlaunum fer í skatta og rekstur heimilis,“ segir Rannveig að lokum.

Hvatning kennara hefur áhrif

„Það var mikill metnaður í keppendum, margir af efstu skólunum að skora mjög hátt og afar mjótt á munum,“ segir Kristín Lúðvíksdóttir verkefnastjóri Fjármálavits sem stendur að keppninni. Meðaleinkunn í keppninni er nokkuð svipuð milli ára og eru stelpur á landsbyggðinni að skora hæst í ár.

Að sögn Kristínar virðist hvatning kennara hafa töluverð áhrif á frammistöðu í keppninni. „Það sést vel að í þeim skólum sem skora hátt, eru kennarar sem hvetja krakkana markvisst áfram og eru jafnvel að skipuleggja hana inn í námsáætlun vetrarins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert