„Ég hef lært það að tala ekki illa um líkamann minn“

Pálína Ósk Ómarsdóttir er þriggja barna móðir sem hefur verið …
Pálína Ósk Ómarsdóttir er þriggja barna móðir sem hefur verið dugleg að deila efni sem tengist líkamsímynd á og eftir meðgöngu á samfélagsmiðlum.

Snyrti- og förðunarfræðingurinn Pálína Ósk Ómarsdóttir er 32 ára þriggja barna móðir sem hefur verið dugleg að deila efni sem tengist líkamsímynd á og eftir meðgöngu á samfélagsmiðlum sínum. Hún mætti í viðtal á fjölskylduvef mbl.is fyrr í mánuðinum þar sem hún opnaði sig um meðgöngur og fæðingar barnanna sinna ásamt líkamsímynd, „óhefðbundinni“ óléttukúlu, baráttu við átröskun og erfið áföll. 

Á fyrstu meðgöngunni var Pálína með „hefðbundna“ kúlulaga óléttukúlu og segir hún upplifunina hafa verið allt aðra en á seinni meðgöngunum tveimur þegar hún var ekki með „hefðbundna“ kúlu, en þá fékk hún að heyra ljótar athugasemdir um útlit sitt úr ótrúlegustu áttum. 

Eftir mikla sjálfsvinnu hefur Pálína byggt upp líkamsímynd sína og er í dag sátt í eigin skinni. Hún segist ekki taka það lengur inn á sig þegar einhver setur út á útlit hennar eða líkama. Í dag nýtur hún þess að hreyfa sig og eyða tíma með börnunum sínum.

„Ég ólst upp í megrunarmenningu“

Pálína segir reynslu sína af því að hafa átt í erfiðu sambandi við líkamann sinn og mat án efa hafa áhrif á það hvernig hún kýs að ala börnin sín upp. „Ég ólst upp í megrunarmenningu, það voru alltaf allir í megrun og helteknir af þyngd. Ég heyrði ítrekað hvernig fólk talaði um líkama annarra og sinn eigin,“ segir hún. 

„Ég hef lært það að tala ekki illa um líkamann minn né annarra og munu börnin mín aldrei verða vitni af því frá mér né manninum mínum. Á mínu heimili er ekki í boði að setja út á útlit annarra,“ bætir hún við. 

Pálína er dugleg að hreyfa sig og vill að börnin hennar alist upp við það að sjá móður sem æfir til þess að líða vel og vera hraust, sama í hvaða formi hún er. „Það er ekkert meira sport hjá þeim en að fá að æfa með mömmu sinni. Og ég læt líkamann minn ekki stoppa mig í að fara í sund með þau,“ segir hún. 

Í dag nýtur Pálína þess að hreyfa sig til að …
Í dag nýtur Pálína þess að hreyfa sig til að líða vel og vera hraust.

Pálína vonar að hennar kynslóð nái að snúa útlitsdýrkun og megrunarmenningunni sem tíðkaðist áður fyrr við og kenna börnum mikilvægi þess að geta hreyft sig og notið sín óháð útliti.

„Mér finnst svo mikilvægt að stelpur og konur átti sig á því að við eigum aðeins þetta eina líf og það er ekki þess virði að eyða orkunni okkar í að berja sjálfsmyndina okkar niður. Okkar kynslóð hefur tækifæri til þess að kenna börnunum okkar mikilvægi þess að tala fallega til sín og annarra, og kenna þeim mikilvægi þess að geta hreyft sig og notið sín óháð útliti. Þú mátt taka pláss í lífinu,“ bætir hún við.

Hvetur konur til að tala fallega til sín

Í viðtalinu ræddi Pálína opinskátt um breytingarnar sem urðu á líkama hennar á og eftir meðgöngurnar þrjár, en þrátt fyrir að hafa verið meðvituð um að breytingarnar væru eðlilegar viðurkenndi hún að það hafi tekið tíma að meðtaka þær.

Hún ræddi einnig um andlega erfiðleika sem hún gekk í gegnum, en hún upplifði alvarlegt fæðingarþunglyndi eftir fæðingu miðju sonar hennar og segir það vera mikla sjálfsvinnu fyrir hana að komast heil í gegnum fæðingarorlofið sem hún er í með dóttur sinni um þessar mundir.

Spurð hvort hún sé með einhver ráð fyrir konur þegar kemur að líkamsbreytingum á og eftir meðgöngu nefnir Pálína nokkra hluti. 

„Hjá Hvítabandinu var mér kennt að þegar ég væri í aðstæðum þar sem ég væri að fara að rakka sjálfa mig niður þá ætti ég að stoppa og finna eitthvað eitt sem ég elska við sjálfa mig. Það mætti til dæmis vera nefið, auguð, húðin hárið ... í raun bara að reyna að finna eitthvað sem hvetur þig til þess að tala fallega til þín. Ég hugsa til dæmis alltaf hvað ég er með falleg augu,“ útskýrir hún. 

Þrátt fyrir að hafa verið meðvituð um líkamsbreytingarnar viðurkennir Pálina …
Þrátt fyrir að hafa verið meðvituð um líkamsbreytingarnar viðurkennir Pálina að það hafi tekið tíma að meðtaka þær.

„Við eigum aðeins þetta eina líf“

Pálína leggur einnig áherslu á mikilvægi þess að sína sjálfum sér mildi og vera í núinu. „Hrósaðu þér daglega og mundu að sá tími mun koma þar sem þú finnur þig sjálfa aftur. Það getur hins vegar tekið mislangan tíma eftir því hvar þú ert stödd andlega og líkamlega,“ segir hún. 

„Við eigum aðeins þetta eina líf og börnin okkar eru ekki að fara að muna eftir því hvort mamma þeirra var 10 kg léttari eða þyngri hér eða þar. Það sem þau munu muna eftir er hvort þú gafst þér tíma til að fara með þau í sund eða göngutúr sem dæmi. Þau munu alltaf elska þig, sama hvað. Þú ert sólin sem birtir til í lífi þeirra,“ bætir hún við. 

Pálína mælir einnig með því að konur fylgi konum með fjölbreytta líkama á samfélagsmiðlum og konum sem upphefja hvor aðra. „Það er ekkert meira eitrað fyrir þig en að fylgja konum sem láta þér líða illa með líkama þinn. Við þurfum líka að muna það að við höfum öll okkar djöfla að draga. Það er enginn fullkominn þótt samfélagsmiðlar láti eins og það eigi að vera þannig. Samfélagsmiðlar eru ekki raunveruleikinn,“ segir hún. 

„Það er líka mikilvægt að muna að við erum að búa til líf og það er ekki sjálfsagt. Slitin og svuntan sem við fáum eru vegna þess að líkaminn varð að búa til pláss fyrir litla krílið og eru t.d. litlu dúnkenndu hárin til að verka og hita líkamann,“ segir Pálína að lokum. 

Fyrri mynd­in er tek­in á meðgöngu og seinni mynd­in tveim­ur …
Fyrri mynd­in er tek­in á meðgöngu og seinni mynd­in tveim­ur árum eft­ir meðgöng­una.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert