5-7% hagvöxtur verði bæði af stækkun Norðuráls og álveri Alcoa

Tölvumynd af fyrirhuguðu álveri Alcoa í Reyðarfirði.
Tölvumynd af fyrirhuguðu álveri Alcoa í Reyðarfirði. mbl.is

Efnahagsskrifstofa fjármálaráðuneytisins reiknar með að ef 90.000 tonna stækkun álvers Norðuráls á Grundartanga komi til framkvæmda árið 2005 og 60.000 tonna stækkun árið 2009 og jafnframt byggi Alcoa 322.000 tonna álverksmiðju á Reyðarfirði sem hefji framleiðslu árið 2007 gæti hagvöxtur orðið 5-7% þegar mest lætur og verðbólga 5-8%. Snöggur samdráttur í framkvæmdum gæti hins vegar valdið tímabundinni stöðnun.

Efnahagsskrifstofan hefur sent frá sér greinargerð þar sem lagt er mat á þjóðhagsleg áhrif fjárfestinga í virkjunum, byggingar álvers á Reyðarfirði og stækkunar álvers Norðuráls á Grundartanga. Er farið yfir áhrif þess ef aðeins verði af stækkun álvers Norðuráls, ef aðeins verði af byggingu álvers Alcoa og loks ef farið verði í báðar þessar framkvæmdir með tilheyrandi virkjunum.

Niðurstöðurnar eru birtar sem frávik frá tilteknu grunndæmi, sem er án álvers- og virkjunarframkvæmda, en það er samhljóða þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins sem kynnt var í desemberbyrjun 2002. Fram kemur að ef af báðum framkvæmdunum verður megi gera ráð fyrir að framleiðslustig lands- og þjóðarframleiðslu verði 3-4% hærra en í grunndæminu á tímabilinu 2003-2010. Árlegur hagvöxtur verði líklega 1¾% meiri en í grunndæmi á framkvæmdatíma 2003- 2006. Til lengdar sé líklegt að þjóðarframleiðsla verði 1% hærri en í grunndæmi og landsframleiðsla 1¾% hærri.

Horfur eru á að heildarfjárfesting í þjóðarbúskapnum verði um 67% meiri en í grunndæmi á árunum 2005 og 2006 og að jafnaði 25% hærri 2003-2010. Miklar breytingar í fjárfestingu valdi snörpum sveiflum í þjóðarbúskapnum. Gera megi ráð fyrir að viðskiptajöfnuður á framkvæmdatíma 2003-2010 verði óhagstæðari en í grunndæmi sem nemur 5% af landsframleiðslu að jafnaði.

Aukinn álútflutningur mun skapa forsendu til viðsnúnings á viðskiptajöfnuði og hærra raungengis en í grunndæmi. Miðað við óbreytt nafngengi gerir fjármálaráðuneytið ráð fyrir að árlegar tekjur af útflutningi verði um 14-20% meiri en í grunndæmi tímabilið 2010- 2025.

Hagstjórn taki mið af aðstæðunum
Ráðuneytið segir að þessar framkvæmdir, einkum bygging álvers Alcoa, muni hafa umtalsverð áhrif á framvindu efnahagsmála hér á landi, einkum þegar framkvæmdir standa sem hæst. Mikilvægt sé að hagstjórn taki mið af þessum aðstæðum og eigi það bæði við um stjórn peningamála og ríkisfjármála.

Fjármálaráðuneytið segir, að vaxtahækkun og samdráttur í opinberum framkvæmdum hamli gegn aukinni innlendri eftirspurn og þar með verðbólgu. Til dæmis gæti 2% hækkun langtímaraunvaxta leitt til þess að verðbólga yrði ½-1% lægri að meðaltali en ella, þ.e. án aðgerða. Verði jafnframt dregið úr fjárfestingu hins opinbera um 10% yrðu áhrifin enn sterkari, eða sem nemi lækkun verðbólgu um 1½-2½% að meðaltali árin 2005 og 2006. Samanlagt gætu slíkar aðgerðir því lækkað verðbólgu um 2-3½% og þannig stuðlað að því að verðbólgumarkmið Seðlabankans náist.

Greinargerðin í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK