Hlutafé aukið úr 50 í 500 milljónir króna

Hlutafé Atlantsáls, sem er undirbúningsfélag í eigu rússneskra og íslenskra aðila um byggingu súrálsverksmiðju og álvers hér á landi, hefur verið aukið úr 50 í 500 milljónir króna.

Auknu hlutafé, sem kom fyrst og fremst frá Rússum, er ætlað að standa straum af kostnaði við gerð umhverfismatsskýrslu sem ráðgert er að byrja á í sumar.

Þeir staðir fyrir súrálsverksmiðju sem Atlantsál er að kanna, samkvæmt leiðbeiningum frá orkusviði Fjárfestingarstofunnar, eru við Húsavík og á Keilisnesi á Reykjanesi og einnig er bygging álvers til athugunar, annaðhvort við Húsavík eða Dysnes í Eyjafirði. Ákveðið verður á stjórnarfundi Atlantsáls í næstu viku hverjir af þessum stöðum koma helst til greina. Þá hefur félagið sent iðnaðarráðherra bréf og óskað einnig eftir viðræðum um byggingu álvers á Reyðarfirði, í samstarfi við japanskt iðnfyrirtæki.

Eigendur Atlantsáls eru Transal með 80% hlut og Altech, sem er í aðaleigu Jóns Hjaltalíns Magnússonar verkfræðings, á 20% hlut. Transal er skráð félag í Bretlandi en er í eigu rússneska álfyrirtækisins Russian Aluminium og VAMI (Russian National Aluminium-Magnesium Institute), sem er áltæknifyrirtæki í St. Pétursborg í Rússlandi. Rússarnir hafa sýnt verkefninu mikinn áhuga og var það m.a. kynnt af fulltrúum VAMI fyrir Halldóri Ásgrímssyni utanríkisráðherra er hann var á ferð í Sankti Pétursborg nýlega í tengslum við Rússlandsheimsókn forseta Íslands. Fékk Halldór líkan að gjöf af súrálsverksmiðju og sambyggðri virkjun.

Jón Hjaltalín sagði við Morgunblaðið að mikil undirbúningsvinna væri að baki og verkefnið væri í góðum farvegi. Búið væri að skrifa undir samstarfssamning við orkusvið Fjárfestingarstofunnar vegna forathugana á orkuöflun og fleiri þáttum.

Við Húsavík er reiknað með að fá orku úr gufuaflsvirkjun við Þeistareyki. Þar þyrfti að bora sex eða sjö háhitaholur til að fullnægja raforkuþörf súrálsverksmiðju sem framleiddi um 2 milljónir tonna á ári. Til stendur að bora um 1.600 metra djúpa rannsóknarholu þar í sumar á vegum Orkuveitu Húsavíkur en rannsóknir Orkustofnunar hafa bent til að við Þeistareyki sé mikill hiti í iðrum jarðar. Jón sagði að á Keilisnesi væri miðað við að fá raforku frá háhitasvæðum í Svartsengi eða Trölladyngju.

Íslensk álver gætu þurft 2 milljónir tonna af súráli árið 2010

Súrál er meginhráefni fyrir framleiðslu álvera líkt og starfrækt eru hér á landi í Straumsvík og á Grundartanga. Til að framleiða 2 milljónir tonna af súráli þarf 4 milljónir tonna af málminum boxít, sem flytja á sjóleiðina til landsins frá námum í Vestur-Afríku, og úr sama magni súráls fæst um 1 milljón tonna af áli. Miðað við ársframleiðslu álveranna hér á landi þarf ÍSAL um 320 þúsund tonn af súráli á ári og Norðurál um 180 þúsund tonn. Að sögn Jóns Hjaltalíns miðast áform Atlantsáls við að árið 2010 þurfi íslensk álver um 2 milljónir tonna af súráli árlega.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK