Ríflega eins milljarðs hagnaður hjá Norðuráli 2001

mbl.is/Jim Smart

Rekstur Norðuráls skilaði 1.060 milljóna króna hagnaði á árinu 2001. Nettóvelta fyrirtækisins var 8,8 milljarðar króna á síðasta ári, í samanburði við tæpa 6 milljarða króna árið áður. Framleiðsla á áli var yfir 74 þúsund tonn á árinu 2001 en á árinu 2000 voru framleidd um 58 þúsund tonn.

Í fréttatilkynningu segir að framleiðslugeta álversins hafi aukist úr 60 þúsund tonnum á ári í 90 þúsund tonn með öðrum byggingaráfanga sem fól í sér að bætt var 60 kerum við þau 120 sem fyrir voru. „Framleiðsla í nýjum kerum hófst 11. júní og lauk gangsetningu þeirra fyrir júlílok. Byggingarkostnaður var undir áætlun og framkvæmdatími heldur styttri en áætlað var, sem kemur meðal annars fram í því að framleiðsla ársins 2001 varð 3.400 tonnum meiri en áætlað var. Með tilkomu stækkunarinnar hefur stöðugildum fjölgað úr 164 í liðlega 200 á árinu 2001. Meðallaun starfsmanna á árinu 2001 voru 316 þúsund krónur á mánuði. Álverð var þokkalegt framan af síðasta ári en fór ört lækkandi síðari hluta ársins í samræmi við erfitt efnahagsástand í heiminum. Meðalverðið var um 1450 dollarar á árinu 2001 sem er nokkru lægra en meðalverð ársins 2000, en það var þá um 1550 dollarar. Norðurál keypti á árinu 2000 vilnanir sem vörðu félagið gegn verðfalli á álmörkuðum þegar verðið var lægst á síðasta ári. Félagið tryggði sér þannig ákveðnar lágmarkstekjur óháð álverði á mörkuðum og dró með því úr áhættu af rekstrinum. Náðst hefur verulegur árangur í að ná niður kostnaði á ýmsum sviðum og vegur þar þungt áhugi og aukin reynsla starfsmanna. Félagið hefur hvatt starfsmenn til kostnaðaraðhalds með því að þeir fá hlutdeild í sparnaði í rekstri auk árangurs vegna annarra þátta. Hlutdeild starfsmanna í rekstrarárangri nam að meðaltali yfir 400 þúsund krónum á mann á síðasta ári. Aukning framleiðslugetu á miðju ári hefur þegar sýnt sig að vera hagkvæm aðgerð fyrir reksturinn og er mikilvægur liður í því að tryggja samkeppnisfærni og bæta arðsemi eigin fjár. Til þess að tryggja samkeppnisfærni og viðunandi ávöxtun eiginfjár til lengri tíma er frekari stækkun nauðsynleg, eins og gert var ráð fyrir í forsendum þeirra samninga sem gerðir voru við upphaf byggingar 1. áfanga álversins. Bókhald Norðuráls er haldið í Bandaríkjadölum. Allar tekjur félagsins sem og allar langtímaskuldir eru sömuleiðis í dollurum. Félagið varð því ekki fyrir gengistapi vegna breytinga á gengi íslensku krónunnar á árinu 2001. Áfram er gert ráð fyrir hagnaði af rekstri Norðuráls á árinu 2002 en áætlað er að framleiða ríflega 90.000 tonn. Sérfræðingar eru almennt sammála um að horfur séu á að álverð fari hækkandi á næstu misserum og hafa batamerki þegar sést, þótt enn vanti nokkuð á að viðunandi meðalverði sé náð," segir í fréttatilkynningu.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK