Landsbankinn hefur trú á álvinnslunni

Bankaráð Landsbanka Íslands var nýverið á ferð um Egilsstaði í og bauð viðskiptamönnum sínum til fundar á Hótel Héraði til skrafs og ráðagerða. Helgi S. Guðmundsson, formaður bankaráðs, setti fundinn og að því búnu fór Halldór J. Kristjánsson bankastjóri yfir helstu áherslur í starfseminni. Kom m.a. fram í máli hans að eigið fé bankans hefur tvöfaldast frá 1. janúar 1998, en þá var Landsbankanum breytt í hlutafélag.

Krónan í jafnvægi

Halldór sagði að það væri mat stjórnenda bankans, að á næstu 12-18 mánuðum ætti íslenska krónan að geta verið í jafnvægi og jafnvel styrkst eitthvað. "Við teljum að það eigi á næstu 12 mánuðum að vera hægt að ná 1. árs verðbólgumarkmiði Seðlabankans, en það er að ná verðbólgunni í um 4%. Við teljum einnig að aðstæður séu þannig á íslenskum fjármálamarkaði, að það ætti að vera grundvöllur fyrir því að lækka vexti nú þegar. Vaxtamunur milli Íslands og erlendra ríkja hefur verið að aukast og nú er svo komið að okkur sýnist eðlilegt að lækka stýrivexti eins hratt og kostur er. Við ættum að sjá þróun þar sem vextir fara úr 11% í 9%. Þá metum við það svo, að langtímavextir eigi að fara lækkandi, hugsanlega um 50 punkta og í kjölfar þess og lækkun verðbólgu ættu virði hlutabréfa og úrvalsvísitalan að taka við sér að nýju," sagði Halldór um rekstrarhorfur næstu mánuðina.

Óhætt að fjárfesta í álinu

Að sögn Halldórs hefur Landsbankinn trú á áli. Hlutabréfaverð í Norsk Hydro hefur hækkað um tæp 10% frá byrjun árs, en almenn vísitala í Noregi lækkaði um 10% á sama tímabili og tæknivísitalan lækkaði um 20%. "Markaðurinn hefur trú á álframleiðslu," sagði Halldór. "Sé horft til bandarískra fyrirtækja þá er mjög athyglisvert að Alcoa, sem er stærsta álfyrirtæki heims, hefur hækkað um nálægt 50% á hlutabréfamarkaði. Sambærileg fyrirtæki hafa lækkað um 10%, þ.e.a.s. ef við skoðum meðalvísitölu iðnfyrirtækja í Bandaríkjunum. Við erum þannig samstiga markaðnum að meta langtímaþátttöku í álframleiðslu þannig, að óhætt eigi að vera að fjárfesta í greininni."

Sigurður Sigurgeirsson, svæðisstjóri Landsbankans á Norður- og Austurlandi, fór yfir starfsemina á sínu svæði. Fram kom að þar eru nú 98 stöðugildi, þar af 38 á Austurlandi. Útlán útibúa svæðisins nema 15,5 milljörðum og hefur um 1/3 hluti þess fjármagns verið lánaður á Austurlandi. Markaðshlutdeild bankans á svæðinu er 63,4% í innlánum og 68,3% í útlánum, sem er utan lána til stórfyrirtækja.

Sigurður sagði töluverðar breytingar hafa verið í rekstri útibúanna og átti þar bæði við mannabreytingar og almenna hagræðingu. Útibúin gegndu nú fyrst og fremst því hlutverki að vera sölu- og þjónustueiningar fyrir einstaklinga og smærri fyrirtæki.

Því er spáð að um 60% viðskiptavina Landsbankans muni nýta sér netsamskipti í viðskiptum sínum við bankann árið 2003 og má ætla að það kalli á breytingar í rekstri útibúa og minnki gildi þeirra í framtíðinni.

Egilsstöðum. Morgunlaðið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK