Engin afstöðubreyting Norðmanna

Tölvumynd af væntanlegu álveri Reyðaráls í Reyðarfirði.

Tölvumynd af væntanlegu álveri Reyðaráls í Reyðarfirði.
mbl.is

Geir A. Gunnlaugsson stjórnarformaður Reyðaráls og framkvæmdastjóri Hæfis hf. segir að engin afstöðubreyting hafi komið fram af hálfu Norðmanna í samtölum við Íslendinga vegna fyrirhugaðs álvers Reyðaráls. Í ljósi viðtals sem birtist í norsku blaði við forstjóra áldeildar Nork Hydro í dag verði hins vegar leitað staðfestingar á því. Hæfi er fyrirtæki íslensku fjárfestanna sem á Reyðarál hf. til helminga á móti dótturfyrirtæki Norsk Hydro.

Í viðtali norska viðskiptablaðsins Dagens Næringsliv við Eivind Reiten, forstjóra áldeildar Norsk Hydro, kemur m.a. fram að álverið sé mjög fýsilegur kostur fjárhagslega en of snemmt sé að fullyrða að nokkuð verði af þátttöku Norsk Hydro í verkefninu. Það skýrist ekki endanlega fyrr en 1. febrúar 2002, þegar ákvörðun um Noral-verkefnið eigi að liggja fyrir. Reiten segir m.a. að huga þurfi sérstaklega vel að vegna fyrirhugaðs álvers við Reyðarfjörð er skortur á hæfu starfsfólk á Austurlandi, hvernig þjónustu við álverið verði háttað sem og þau áhrif sem staðsetning og starfsemi álversins geti haft, t.d. á smáiðnað á svæðinu. Á heimasíðu Reyðaráls segir Geir A. Gunnlaugsson að alltaf hafi legið fyrir að það væri vissulega mikið verkefni að setja þetta stóra fyrirtæki niður á Austurlandi. Hann segir þar að stefna Reyðaráls sé að sem allra mest af þjónustunni verði aðkeypt, helst frá fyrirtækjum á Austurlandi. Hins vegar þurfi að virkja þau fyrirtæki sem fyrir eru eða stuðla að því að slík þjónustufyrirtæki verði til og af hálfu Reyðaráls hafi komið fram að fyrirtækið vilji stuðla að því. Geir segir að endanleg niðurstaða um hvort af byggingu álversins verði, liggi ekki fyrir fyrr en í ársbyrjun 2002. Þangað til þurfi að vega og meta marga þætti. Eitt þeirra verkefna sem nú séu að hefjast vegna mats á umhverfisáhrifum álversins, sé greining á hinum samfélagslegu áhrifum. Sú greining á að gefa mönnum svör við þeim spurningum sem Reiten setti fram, um þjónustuna, áhrifin á hinar austfirsku byggðir og það hvernig mannaflaþörf álversins verður mætt, segir stjórnarformaður Reyðaráls.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK