Norðmenn tryggðu sér annað gull

Norska sveitin fagnar dramatískum sigri.
Norska sveitin fagnar dramatískum sigri. AFP

Óhætt er að segja að Noregur fari vel af stað á Vetrarólympíuleikunum í Peking. Í morgun bættust við önnur gullverðlaun þjóðarinnar þegar aðeins er búið að keppa í þremur verðlaunagreinum.

Norðmenn unnu gull í 4x6 kílómetra blandaðri boðgöngu í skíðaskotfimi. Lið eru skipuð einni konu, sem gengur fyrst sex kílómetra, og þremur körlum sem taka við og ganga sex kílómetra hver.

Eftir mikla dramatík þar sem mikill vindur setti sérstaklega strik í reikninginn fyrir keppendur á skotsvæðinu tókst Johannes Thingnes Bö að skjóta Frökkum og Rússum ref fyrir rass og kom fyrstur í mark á 1:06:45,06.

Norska sveitin er skipuð Thingnes Bö, bróður hans Tarjei Bö, Tiril Eckhoff og Marte Olsbu Roiseland

Franska sveitin hafnaði í öðru sæti, hársbreidd frá þeirri norsku, á 1:06:46,5 og nældi í silfur.

Rússar voru svo örskammt undan á 1:06:47,1 og kræktu þannig í bronsverðlaun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka