Aljamain Sterling varði beltið - Cejudo hættur?

Aljamain Sterling með beltið eftir sigur á Henry Cejudo í …
Aljamain Sterling með beltið eftir sigur á Henry Cejudo í gær. AFP/Sarah Stier

Aljamain Sterling vann Henry Cejudo eftir dómaraákvörðun í titilbardaga bantamvigtar UFC í nótt.

Sterling vann eftir dómaraákvörðun en tveir dómaranna dæmdu bardagann 48:47 Sterling í vil á meðan einn dómari dæmdi bardagann 48:47 Cejudo í vil.

Bardaginn var, eins og skor dómara gefur til kynna, mjög jafn og skiptust bardagamennirnir á að hafa yfirhöndina í bardaganum. Sterling greip mikið til hnésparka og notaði olnbogann mikið til að valda skaða á Cejudo og varð það á endanum nóg til að sigra bardagann.

Eftir bardagann sagði Henry Cejudo að þetta gæti hafa verið hans síðasti bardagi í UFC. Cejudo kom til baka í UFC fyrir þremur árum eftir að hafa verið hættur. Hann sagði eftir bardagann að hann hataði að tapa og ef hann gæti ekki skrifað söguna þá væri þetta ekki þess virði.

Eftir bardagann mætti Sean O´Malley inn í búrið og skoraði á Aljamain Sterling, þurftu öryggisverðir að stíga á milli þeirra. Dana White, forseti UFC bardagasamtakanna, sagði að það hafi verið slæm hugmynd að hleypa O´Malley inn í búrið og betra hefði verið að kynna þann bardaga einhvernvegin öðruvísi.

Sterling kallaði eftir því á blaðamannafundi að fólk færi að bera meiri virðingu fyrir sér og því sem hann hefur afrekað í íþróttinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert