Khabib með yfirburði í Abú Dabí

Khabib Nurmagomedov vann sannfærandi sigur.
Khabib Nurmagomedov vann sannfærandi sigur. AFP

Rússinn Khabib Nurmagomedov sýndi enn og aftur styrk sinn með öruggum sigri á Dustin Poirier í bardaga um léttvigtartitil UFC-bardagasamtakanna á UFC 242 í Abú Dabí í gærkvöldi. 

Nurmagomedov, sem vann Conor McGregor í síðasta bardaga, náði Poirier niður hvað eftir annað og vann að lokum með hengingu í þriðju lotu. Nurmagomedov hefur nú unnið alla 28 bardaga sína sem atvinnumaður í blönduðum bardagalistum og er einn sá allra besti í sögunni. 

Í næstsíðasta bardaga kvöldins hafði Paul Felder betur gegn Edson Barboza eftir klofna dómaraákvörðun í léttvigt. Eftir bardagann bað Felder um bardaga gegn andstæðingi í topp fimm í léttvigtinni. Það gæti verið spennandi bardagi á næsta leiti hjá Felder, sem hefur unnið fimm af sex síðustu bardögum. 

Gunnar Nelson berst hinn 28. september næstkomandi í Royal Arena í Kaupmannahöfn. Gunnar mætir þá Thiago Alves frá Brasilíu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert