Tindastóll jafnaði metin

Klara Sólveig Björnsdóttir og Elektra Mjöll Kubrzeniecka eigast við í …
Klara Sólveig Björnsdóttir og Elektra Mjöll Kubrzeniecka eigast við í kvöld. Ljósmynd/Jóhann Helgi Sigmarsson

Tindastóll vann nauman sigur á Aþenu, 67:64, í öðrum leik liðanna í úrslitum umspils um laust sæti í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik á Sauðárkróki í kvöld.

Staðan í einvíginu er 1:1 en vinna þarf þrjá leiki til þess að tryggja sér sæti í úrvalsdeild á næsta tímabili. Liðin mætast næst í Austurbergi í Breiðholti á föstudagskvöld.

Í kvöld var leikurinn í járnum allan tímann. Staðan í hálfleik var 38:35.

Aþena var búin að jafna metin í 50:50 að loknum þriðja leikhluta en í fjórða og síðasta leikhluta tókst heimakonum að lokum að hafa þriggja stiga sigur.

Stigahæst í leiknum var Emese Vida með 18 stig og 11 fráköst fyrir Tindastól. Ifunanya Okoro bætti við 16 stigum og átta fráköstum.

Hjá Aþenu voru Sianni Martin og Elektra Mjöll Kubrzeniecka stigahæstar með 14 stig hvor. Martin bætti við sex fráköstum og Elektra Mjöll níu fráköstum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert