Vörnin grunnurinn að sigrinum

Daniela Wallen skoraði 27 stig og tók 12 fráköst í …
Daniela Wallen skoraði 27 stig og tók 12 fráköst í kvöld. Að auki stal hún 9 boltum. Arnþór Birkisson

Keflavík kjöldróg Stjörnuna í fyrstu undanúrslitaviðureign liðanna í Reykjanesbæ í kvöld. Með sigrinum er Keflavík komið yfir í einvíginu en þrjá sigra þarf til að komast áfram í úrslitaeinvígi gegn Grindavík eða Njarðvík. Sverrir Þór Sverrisson þjálfari Keflavíkur var sáttur með sigurinn í samtali við Mbl.is þrátt fyrir afar slæma byrjun Keflavíkur í byrjun leiksins.

Var vanmat eða værukærð í gangi hjá Keflavík í fyrri hálfleik?

"Ég veit það ekki. Nei ég trúi því ekki því vitum alveg hvað er spunnið í þetta Stjörnulið. Þannig að nei ég neita að trúa því."

Hvað er það þá sem veldur lélegum fyrri hálfleik hjá Keflavík?

„Við vorum í tómu basli varnarlega í fyrri hálfleik. Stjörnukonur fengu að komast framhjá okkur ef þær vildu og þær hittu vel ofan á það og við vorum bara í veseni. Stjarnan spilaði bara frábærlega í fyrri hálfleik."

Síðan mætir allt annað lið Keflavíkur í síðari hálfleik. Hvað breyttist?

Við þurftum að fara spila betri vörn, vinna betur saman og það var það sem gerðist ásamt því að við stoppum sóknirnar þeirra, keyrum upp hraðan og það sem gerist í framhaldinu af því er að við fáum betri körfur og þá kom sjálfstraustið, betri hitni og allar sem tóku þátt í síðari hálfleik voru frábærar. Vörnin okkar var grunnurinn að sigrinum í síðari hálfleik."

Sverrir Þór Sverrisson þjálfari Keflavíkur
Sverrir Þór Sverrisson þjálfari Keflavíkur Haraldur Jónasson/Hari

Ef við horfum á Keflavík út frá síðari hálfleiknum og seríunni á móti Fjölni. Það er ekkert að fara stoppa þetta Keflavíkurlið í leið sinni að þrennunni er það?

"Það á bara eftir að koma í ljós. Við erum bara í undanúrslitum og búin að vinna einn leik. Við þurfum að vinna þjrá leiki til að komast lengra og núna erum við bara að hugsa um að mæta af krafti í leik 2. Við þurfum að undirbúa okkur vel fyrir þann leik. Við sáum þennan fyrri hálfleik hjá þeim og þær mæta og ætla að verja heimavöllinn sinn. Nú hugsum við bara um að vinna þær í Garðabænum."

Eitthvað sérstakt sem þú vilt sjá þína leikmenn laga fyrir leikinn í Garðabæ?

"Já ég vill sjá leikmenn byrja leikinn betur og að við séum að halda leikmönnum fyrir framan okkur, séum að stíga út í vörninni og að taka fráköst. Það var lykillinn að þessu hér í síðari hálfleik. Þegar við fórum að gera þessa hluti vel þá fórum við að spila betur." sagði Sverrir í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert