Keflavík stakk Stjörnuna af

Ísold Sævarsdóttir með boltann gegn Keflavík.
Ísold Sævarsdóttir með boltann gegn Keflavík. mbl.is/Arnþór Birkisson

Keflavík og Stjarnan áttust við í fyrstu undanúrslitaviðureign sinni í Íslandsmóti kvenna í körfubolta í Keflavík í dag og lauk leiknum með 28 stiga sigri Keflavíkur, 93:65.

Keflavík er 1:0 yfir í einvíginu og þurfa tvo sigra í viðbót til að komast í úrslitaeinvígið gegn Grindavík eða Njarðvík.

Keflavík mætti ekki í fyrsta leikhluta

Fyrir leikinn hafði undirritaður spáð Keflavík auðveldum sigri hér í dag. Það reyndist öðru nær því Keflavíkurkonur voru andlega fjarverandi í fyrsta leikhluta og Stjörnukonur notfærðu sér það.

Stjarnan skoraði 8 fyrstu stig leiksins og staðan 8:0 fyrir gestina. Fyrstu 4 stig Keflavíkur komu frá Elisu Pinzan. Staðan þá 10:4 fyrir Stjörnuna. Keflavíkurkonur virtust ætla að vakna til lífsins þegar þeim tókst að minnka muninn í 4 stig í stöðunni 18:14 en þá tók Stjarnan leikhlé.

Það virkaði vel fyrir gestina sem byrjuðu að auka muninn og leiddu að lokum með 10 stigum eftir fyrsta leikhluta, 24:14.

Stjarnan betri í öðrum leikhluta

Keflavík setti niður fyrstu stig annars leikhluta en þá voru liðnar rúmlega 4 mínútur af leiktíma síðan Keflavík hafði sett niður stig áður. Mjög ólíkt þeim. Stjörnukonur héldu áfram að leiða leikinn og voru betri á flestum sviðum.

Þegar tæplega 7 mínútur voru liðnar af öðrum leikhluta var staðan 40:26 fyrir Stjörnuna og munurinn 14 stig, sá mesti í fyrri hálfleik. Þennan mun náði Keflavík að minnka og þegar öðrum leihluta lauk var staðan 46:36 fyrir Stjörnuna, 10 stiga munur og enn virtist vera bið á því að Keflavík mætti almennilega í leikinn.

Stigahæst í liði Keflavíkur í fyrri hálfleik var Daniela Wallen með 12 stig en Denia Davis-Stewart var með 14 stig og 9 fráköst fyrir Stjörnuna. Sara Rún Hinriksdóttir var með 5 fráköst fyrir Keflavík í fyrri hálfleik.

Stjörnuhrap í þriðja leikhluta

Keflavíkurkonur ákváðu að mæta í síðari hálfleikinn og þá átti Stjarnan því miður engan möguleika. Keflavíkurkonur settu niður fyrstu 5 stig leikhlutans og munurinn kominn í 5 stig. Þegar tæplega 7 mínútur voru liðnar af leikhlutanum hafði Keflavík breytt stöðunni úr 46:36 fyrir Stjörnunni í 57:55 fyrir Keflavík og hraðlest Keflavíkur var farin að keyra af öllu afli!

Þegar þriðja leikhluta lauk leiddi Keflavík með 9 stigum eftir að hafa verið 10 stigum undir. 19 stiga viðsnúningur hjá þeim og unnu þær leikhlutann 28:9!

Keflavík gekk frá leiknum í fjórða leikhluta

Eftir stórkostlegan þriðja leikhluta var sá fjórði algjört formsatriði fyrir firnarsterkt lið Keflavíkur. Þær léku á alls oddi og Stjarnan sá aldrei til sólar. Svo fór að Keflavík vann að lokum 28 stiga sigur 93:65. Keflavík er 1:0 yfir í einvíginu og það verður ekki séð fyrirfram hvernig Stjarnan ætlar að sækja sigur á móti Keflavík í þessari seríu.

Stigahæst í liði Keflavíkur var Daniela Wallen með 27 stig en í liði Stjörnunnar var Denia Davis-Stewart með 16 stig.

Keflavík 93:65 Stjarnan opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert