Sætt að vinna titilinn og komast af hótelinu

Martin Hermannsson
Martin Hermannsson Ljósmynd/Euroleague

Mart­in Her­manns­son átti stór­leik er hann og liðsfé­lag­ar hans í Alba Berlín tryggðu sér þýska meist­ara­titil­inn í körfu­bolta með 75:74-sigri á Ludwigs­burg í dag. Alba vann fyrri leik­inn 88:65 og ein­vígið því afar sann­fær­andi. 

Þar með er úrslitakeppninni í Þýskalandi lokið en hún fór fram í München vegna kórónuveirunnar. „Þetta er auðvitað mjög sætt, bæði að klára þennan titil en líka að komast af þessu hóteli! Við erum búnir að vera á þessu sama hóteli með hinum liðunum í þrjár vikur; máttum fara út klukkutíma á dag, en annars hef ég bara sofið, borðað og æft,“ sagði Martin í samtali við mbl.is í dag, kampakátur með titilinn og að vera laus úr prísundinni þar sem hann og aðrir leikmenn hafa mátt dúsa undanfarið.

Var sjálfur smá stressaður

Martin segir fyrst og fremst ánægjulegt að klára mótið með því að fara alla leið, sérstaklega í ljósi aðstæðna. Þá viðurkennir hann að það hafi komið honum aðeins á óvart hversu sterkir Alba-menn voru eftir kórónuveiruhléið.

„Þetta hefur ekki verið neitt uppistand, en við vorum hérna með það markmið að vinna keppnina og gera dvölina hérna þess virði. Það er ótrúlegt ljúft að klára þetta með titli.

Það kom jafnvel á óvart hvað við litum vel út. Ég var sjálfur smá stressaður, ég meiddist þegar kórónuveiruástandið var að byrja og gat eiginlega ekkert æft í mánuð. En þegar fór að líða á úrslitakeppnina fann ég að mér leið vel, það gekk alltaf betur og betur.“

Martin verður samningslaus í sumar og er með nokkur járn í eldinum en hann er þó ekki búinn að taka ákvörðun um framtíð sína. 

„Ég er samningslaus hjá Alba eftir þetta mót og það eru spennandi hlutir í gangi. Það hafa fleiri lið haft samband, meira að segja eitt sem Íslendingur hefur verið í áður. Ég er spenntur fyrir því en svo er þetta auðvitað spurning um hvort þetta fer eitthvað lengra eða hvort þetta er bara áhugi sem ekkert verður úr.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert