„Ótrúlega góð frammistaða hjá mörgum“

Craig Pedersen og Finnur Freyr Stefánsson.
Craig Pedersen og Finnur Freyr Stefánsson. mbl.is/Eggert

Finnur Freyr Stefánsson, aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins í körfuknattleik, segir að ekki sé heppilegt fyrir íslenskt landslið að fara í landsleik með það á bak við eyrað að mega tapa. Ísland er komið með annan fótinn áfram úr forkeppni EM 2021 en stórt tap í síðasta leiknum í Sviss er það eina sem getur komið í veg fyrir það. 

„Við áttuðum okkur á því eftir fyrsta leikinn í Portúgal (sem tapaðist naumlega) að hlutirnir voru ennþá í okkar höndum. Þeir eru það enn. Við getum talað um að við höfum eitthvað svigrúm í síðasta leiknum í Sviss en það kann ekki góðri lukku að stýra að hugsa of mikið um það. Við ætlum að fara til Sviss og vinna þann leik. Fólki finnst sjálfsagt þægilegt að hugsa til þess að við megum tapa þeim leik en ég held ekki að íslenska landsliðið fari í leik hugsandi um að geta tapað. Við munum gera okkar besta. Mér fannst við ekki spila neitt frábærlega þegar við unnum Sviss fyrir viku síðan. Mig langar mjög til að fara til Sviss og vinna,“ sagði Finnur þegar mbl.is spjallaði við hann í Laugardalshöllinni dag þegar Ísland burstaði Portúgal 96:68. 

Frammistaða íslenska liðsins í dag var glimrandi. „Já. Við skutum boltanum gríðarlega vel. Jón Axel og Hlynur voru báðir með meira en 20 stig. Elvar kom frábær inn af bekknum í fyrri hálfleik. Við náðum að sækja á þá úr öllum áttum og það var kannski helst að undir lokin dytti varnarleikurinn aðeins niður en kannski er græðgi í manni að vilja enn stærri sigur. Á heildina litið var þetta frábær frammistaða hjá ótrúlega mörgum. Gaman var að sjá stráka koma inn á af krafti eins og Ægi, Óla Óla og Gunnar. Allir skiluðu sínu og slíkt einkennir góð lið,“ sagði Finnur Freyr ennfremur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert