Jón Arnór og Helgi verða með KR

Jón Arnór Stefánsson
Jón Arnór Stefánsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jón Arnór Stefánsson og Helgi Már Magnússon, margfaldir Íslandsmeistarar í körfuknattleik, hafa ákveðið að halda áfram körfuknattleiksiðkun og taka slaginn með KR á næsta keppnistímabili. 

Böðvar Guðjónsson, formaður körfuknattleiksdeildar KR, staðfesti þetta við mbl.is. Báðir gerðu eins árs samning og skrifuðu undir í dag. 

Báðir voru leikmennirnir með lausan samning og sögðust í samtali við mbl.is að keppnistímabilinu loknu ætla að hugsa málið í sumar varðandi framhaldið og hvort þeir myndu halda áfram að spila. 

Helgi Már Magnússon í úrslitarimmunni gegn ÍR í byrjun sumars.
Helgi Már Magnússon í úrslitarimmunni gegn ÍR í byrjun sumars. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hvorugur þeirra hefur leikið fyrir annað lið en KR hérlendis en báðir léku þeir erlendis í mörg ár og þá sérstaklega Jón sem var megnið af sínum ferli erlendis eins og íþróttaáhugafólk þekkir. 

Helgi Már hefur sjö sinnum orðið Íslandsmeistari með KR og Jón Arnór fimm sinnum. KR hefur unnið síðustu sex ár eins og frægt er. Gamlir vopnabræður þeirra Brynjar Þór Björnsson og Jakob Örn Sigurðarson gengu aftur í raðir KR í sumar sem og Matthías Orri Sigurðarson. Á hinn bóginn er Pavel Ermolinskij farinn í Val og Michele Di Nunno rær á önnur mið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert