Gestgjafarnir tilbúnir eftir sigur á Frökkum

Leikmenn Ástralíu fagna Mary Fowler eftir að hún skoraði sigurmarkið …
Leikmenn Ástralíu fagna Mary Fowler eftir að hún skoraði sigurmarkið gegn Frökkum í dag. AFP/William West

Ástralía, annar gestgjafanna á heimsmeistaramóti kvenna í fótbolta sem hefst næsta fimmtudag, lauk undirbúningi sínum fyrir mótið á besta mögulegan hátt.

Ástralir sigruðu Frakka, 1:0, í vináttulandsleik í Melbourne í dag þar sem varamaðurinn Mary Fowler skoraði sigurmarkið á 66. mínútu en hún leikur með enska liðinu Manchester City. 

Markið kom eftir sendingu frá Hayley Raso, sem var samherji hennar hjá City en hefur nú samið við Real Madrid.

Ástralía mætir Írlandi í fyrsta leik sínum í B-riðli HM á fimmtudaginn kemur en Nígería og Kanada eru hin tvö liðin í riðlinum.

Franska liðið er í F-riðli og mætir Jamaíku í fyrsta leik 23. júlí og er einnig með Brasilíu og Panama í riðli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert