Lék smitaður á HM og greindist með gollurshúsbólgu

Noussair Mazraoui í leik með Marokkó gegn Spáni á HM …
Noussair Mazraoui í leik með Marokkó gegn Spáni á HM í desember síðastliðnum. AFP/Javier Soriano

Noussair Mazraoui, leikmaður marokkóska landsliðsins og Þýskalandsmeistara Bayern München í knattspyrnu, hefur greinst með gollurshúsbólgu í hjarta eftir að hafa smitast af kórónuveirunni á meðan HM í Katar stóð.

Bayern tilkynnti þetta á heimasíðu sinni í dag.

Mazraoui greindist með veiruna á HM og missti af þeim sökum af sigurleik Marokkó gegn Portúgal í átta-liða úrslitum mótsins, lék svo smitaður af veirunni í tapi gegn Frakklandi í undanúrslitum en var aftur fjarri góðu gamni í bronsleiknum gegn Króatíu, sem tapaðist.

Liðslæknir Bæjara skoðaði bakvörðinn þegar hann sneri aftur til Þýskalands og greindi með væga gollurshúsbólgu, en gollurshús er bandvefshulstur sem liggur utan um hjartað.

Slík bólga getur gert vart við sig vegna veirusýkingar.

Mazraoui verður því frá æfingum og keppni um nokkurn tíma á meðan hann jafnar sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert