Kvarta yfir hegðun Martínez

Emiliano Martínez fékk gult spjald fyrir almenn leiðindi í vítakeppninni …
Emiliano Martínez fékk gult spjald fyrir almenn leiðindi í vítakeppninni gegn Frökkum. AFP/Jewel Samad

Franska knattspyrnusambandið er afar ósátt með hegðun markvarðarins Emilíano Martínez í og eftir úrslitaleik Frakklands og Argentínu á HM í Katar.

Martínez var með mikla stæla í leiknum og þá sérstaklega í vítakeppninni. Eftir leikinn hagaði hann sér furðulega í verðlaunaafhendingunni og var duglegur að syngja niður til Kylians Mbappés, stjörnuleikmanns Frakka.

Þegar Argentínumenn fögnuðu með löndum sínum í heimalandinu, var Martínez með brúðu, með límdu andliti Mbappés.

„Ég skrifaði argentínska knattspyrnusambandinu, því þetta var of langt gengið og óíþróttamannslegt. Ég á erfitt með að skilja þetta,“ sagði Noel Le Graet, forseti franska knattspyrnusambandsins, í samtali við Lemonde í heimalandinu.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert