Nú veit Messi allavega hvað ég heiti

Wout Weghorst skoraði tvö mörk gegn Argentínu.
Wout Weghorst skoraði tvö mörk gegn Argentínu. AFP/Franck Fife

Wout Weghorst, framherji hollenska landsliðsins í fótbolta, lítur á björtu hliðarnar eftir að liðið féll úr leik gegn Argentínu í átta liða úrslitum HM í fótbolta í Katar.

Mikill hiti var í leiknum og rifust leikmenn á meðan á honum stóð, sem og eftir leik. Weghorst átti m.a. í orðaskiptum við Lionel Messi í göngunum eftir leik.

Messi var í miðju viðtali við argentínska ríkissjónvarpið í leikslok, þegar hann sagði Weghorst að hunskast í burtu. Nú hefur hollenski framherjinn útskýrt sína hlið á málinu.

„Ég ætlaði að þakka honum fyrir leikinn, en hann var eitthvað pirraður og var dónalegur. Ég skil ekki mikið spænsku og skildi hann ekki, en það voru vonbrigði. Ég ætlaði bara að sýna honum virðingu, en núna veit hann allavega hvað ég heiti,“ sagði Weghorst í samtali við En Son Haber í Tyrklandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert