Messi á mest lækuðu myndina á Instagram

Lionel Messi með styttuna.
Lionel Messi með styttuna. AFP/Kirill Kudryavtsev

Mynd af Lionel Messi með heimsmeistarastyttuna eftirsóttu er hann var borinn um Lusail-leikvanginn á sunnudag eftir að Argentína tryggði sér heimsmeistaratitilinn með eftirminnilegum hætti, í líklega besta úrslitaleik í sögu mótsins, er nú sú mynd á Instagram sem flestir hafa lækað. Messi birti myndina af sér í gær, skömmu eftir að hafa hampað styttunni.

Rúmlega 57 milljónir manna hafa lækað myndina á samfélagsmiðlinum og skaut hún hinu goðsagnakennda eggi Chris Godfreys ref fyrir rass. Eggið var sett á Instagram með það fyrir augum að velta mynd Kylie Jenner úr sessi sem mest lækuðu myndinni á samfélagsmiðlinum og seinna notað í auglýsingaherferð til að vekja athygli á málefnum tengdum andlegri heilsu. Rúmlega 56 milljónir manna hafa lækað myndina af egginu.

Þriðja mest lækaða myndin á Instagram er einnig af Messi en Cristiano Ronaldo birti hana af þeim Messi í aðdraganda HM í Katar en hún var birt í samstarfi við tískurisann Louis Vuitton. Rúmlega 42 milljónir manna hafa lækað myndina af turnunum tveimur í alþjóðafótboltanum síðasta áratuginn eða svo.

Það má mögulega deila um það hver besti knattspyrnumaður í heimi er en nú hlýtur að vera ljóst að Lionel Messi er mesti áhrifavaldur í heimi, eða hvað?

View this post on Instagram

A post shared by Leo Messi (@leomessi)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert