Við dönsum áfram – það er okkar menning

Richarlison og Tite fagna þriðja markinu gegn Suður-Kóreu þar sem …
Richarlison og Tite fagna þriðja markinu gegn Suður-Kóreu þar sem leikmannahópurinn dansaði fyrir framan varamannabekkinn. AFP/Nelson Almeida

Tite, landsliðsþjálfari Brasilíu í fótbolta, segir að sínir leikmenn muni halda áfram að dansa þegar þeir fagna mörkum, enda sé það hluti af þeirra menningu. 

Brasilísku leikmennirnir, með Neymar og Vinícius Júnior í aðalhlutverkum fögnuðu öllum fjórum mörkum sínum gegn Suður-Kóreu í sextán liða úrslitum heimsmeistaramótsins í Katar með því að stíga villtan dans, og þegar Richarlison skoraði þriðja marki hljóp hann með liðið á hælum sér til Tite sem dansaði með þeim.

Þetta fór fyrir brjóstið á sumum, m.a. Roy Keane, fyrrverandi fyrirliða Manchester  United, sem sagði að með þessu háttalagi hefðu Brasilíumennirnir sýnt andstæðingunum frá Suður-Kóreu lítilsvirðingu.

„Ég ætla ekki að svara þeim sem þekkja ekki sögu og menningu Brasiliu eins og við gerum. Mín tengsl eru við mitt fólk, sem veit hversu mikla virðingu ég ber fyrir okkar þjóð. Fullt af krökkum stíga dans þegar mark er skorað því það er brasilískur sigur. Svona gerum við, þetta erum við. Við munum halda áfram að gera hlutina á okkar hátt," sagði Tite á fréttamannafundi í dag.

„Ég gæti verið afi leikmannanna, en svona tengist ég yngri kynslóðunum. Ef ég þarf að dansa til að halda tengingunni við þá, þá mun ég dansa," sagði Tite ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert