„Fannst við betri á flestum sviðum“

Aron Pálmarsson skýtur að marki Eyjamanna
Aron Pálmarsson skýtur að marki Eyjamanna Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Sóknarleikurinn okkar var frábær, aftur áttu þeir engin svör við okkur,“ sagði Aron Pálmarsson, fyrirliði FH-inga, eftir sigur liðsins í Vestmannaeyjum 28:36 en FH leiðir nú einvígið 2:0.

„Við frekar vorum að gefa þeim færi á hraðaupphlaupum sérstaklega í fyrri hálfleik, þeir keyrðu gríðarlega í byrjun og það voru mörkin sem þeir höfðu fram yfir okkur. Við stóðumst það og héldum svo haus allan leikinn, við breyttum engu í hálfleik og litum vel út á báðum endum vallarins, mér fannst við betri á flestum sviðum.“

Eyjamenn áttu 2-3 áhlaup í leiknum en heilt yfir var frammistaða FH-liðsins virkilega góð.

„Við erum að tala um það, það hafa verið sveiflur í þessu hjá okkur í vetur en við höfum talað um það að við viljum bæta okkur með hverjum leik, mér finnst við vera að því. Við erum orðnir helvíti harðir við sjálfa okkur þegar við skoðum mistök og svona hjá okkur en til þess að ná árangri og ná langt í þessu þarftu að vera fullkomnunarsinni og við erum í því.“

FH-ingar fagna góðum sigri í kvöld
FH-ingar fagna góðum sigri í kvöld Ljósmynd/Sigfús Gunnar


Stuðningsmenn beggja liða voru frábærir í dag, hvernig fannst Aroni að spila leikinn?

„Þetta var geðveikt, kjarninn í FH er gríðarlega stór og þetta eru miklir FH-ingar, ég hef nú aldrei spilað fyrir fullu húsi í Eyjum, þar sem það var ekki fullt um daginn í deildinni. Það var líka geðveik stemning hjá eyjafólki, maður hefur séð þetta í sjónvarpinu og svona, það var ógeðslega gaman að spila hérna,“ sagði Aron en við hverju býst hann í þriðja leiknum á sunnudag?

„Ég býst við særðu dýri, þetta er stríð og það er ekkert komið. Við erum sáttir með þetta en við töluðum um það fyrir einvígið að við ætluðum bara einu sinni til Eyja, það er ennþá langur vegur í úrslitaleikinn, þó hann sé styttri hjá okkur.“

„Það telur ógeðslega mikið, við vitum að Eyjamenn munu fjölmenna og við þurfum að matcha það,“ sagði Aron um mikilvægi stuðningsmanna FH í leiknum næsta sunnudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert