Sem betur fer var ekkert hik á okkur

Morgan Marie Þorkelsdóttir sækir að marki ÍBV í kvöld.
Morgan Marie Þorkelsdóttir sækir að marki ÍBV í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við vorum búnar að undirbúa okkur vel fyrir þennan leik og reiknuðum með þessari 5-1-vörn. Við náðum að leysa hana vel á köflum,“ sagði Sigríður Hauksdóttir, leikmaður Íslandsmeistara Vals, í samtali við mbl.is í kvöld.

Valskonur komust í 1:0 í einvígi sínu gegn ÍBV á Íslandsmótinu í handbolta með 28:22-heimasigri á ÍBV. Valur náði góðu forskoti snemma leiks og hélt því örugglega út allan leikinn og var sigurinn sannfærandi.

„Við viljum alltaf keyra og halda okkar tempói, en við áttum von á því að þær myndu vilja hægja á leiknum. Uppleggið gekk mjög vel í dag og skilaði þessum sigri. Það var fullmikið af óþarfa tæknifeilum undir lok fyrri hálfleiks, en svo slökuðum við kannski aðeins á.“

Sigríður Hauksdóttir.
Sigríður Hauksdóttir. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Valskonur sátu hjá í 1. umferð úrslitakeppninnar og fóru beint í undanúrslitin. Það leið því langur tími á milli leikja en það var ekki að sjá ryð á Valsliðinu.

„Þetta var helvíti löng pása og það var mjög gott að komast aftur út á gólfið. Við erum búnar að æfa vel og sem betur fer var ekki hik á okkur,“ sagði hún.

Hornakonan kann vel við að spila á móti ÍBV, enda skoraði hún sjö mörk í kvöld og var markahæst í sínu liði.

„Það er alltaf mjög gaman að spila á móti ÍBV. Mér finnst mjög gaman að spila á móti svona vörn líka, það opnast mikið í hornunum. Það er mikil tilhlökkun fyrir næsta leik,“ sagði Sigríður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka