HK tryggði sér oddaleik gegn KA

Leikmenn HK fagna sigri gegn KA í þriðja leik liðanna …
Leikmenn HK fagna sigri gegn KA í þriðja leik liðanna í úrslitum Íslandsmóts kvenna í blaki á Akureyri. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

HK og KA þurfa að mætast í oddaleik um Íslandsmeistaratitil kvenna í blaki eftir 3:1-sigur HK gegn KA í fjórða leik liðanna í Fagralundi í kvöld. Þetta var fjórði leikur liðanna í einvíginu og er staðan jöfn í einvíginu, 2:2.

Kópavogsliðið byrjaði leikinn betur í gær og komst í 15:8 í fyrstu hrinu. KA tókst að minnka muninn 22:20 en HK stúlkur enduðu hrinuna betur og unnu hana 25:21. HK byrjaði aðra hrinuna af miklum krafti og komst í 5:0. Akureyringar voru fljótir að svara og tókst að minnka muninn í 12:8. KA komst yfir 19:16 en þá rönkuðu HK-stúlkur við sér og unnu að lokum 25:23-sigur.

Þriðja hrina var algjörlega eign Akureyringa en þær höfðu yfirhöndina allan tímann. KA komst í 13:5 og HK tókst ekki að svara. KA leiddi, 20:11, og vann að lokum 25:16-sigur. Í fjórðu hrinu var mikil spenna þar sem HK byrjaði mun betur og þær komust átta stigum yfir, 14:6. KA liðið náði að koma tilbaka og jafna metin í 24:24 en Elísabet Einarsdóttir kláraði hrinuna fyrir HK með tveimur stigum og HK fagnaði sigri.

Elísabet fór mikinn í liði HK í gær en hún skoraði 22 stig og Hjördís Eiríksdóttir skoraði 16 stig. Hjá KA var Helena Kritín Gunnarsdóttir atkvæðamest með 17 stig og Paula Del Gomez skoraði 14 stig. Ka komst í 2:0 í einvíginu en HK hefur nú tekist að jafna metin með ótrúlegri endurkomu. Liðin mætast í hreinum úrslitaleik á Akureyri 24. apríl næstkomandi og þar ræðst hvort liðið lyftir Íslandsmeistaratitlinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert