Ofsarigning og tveir urðu fyrir eldingu í Kaupmannahöfn

Veðrið lék við keppendur í upphafi hlaups.
Veðrið lék við keppendur í upphafi hlaups. Ljósmynd/Twitter/CPHHALF

Ofsarigning og haglél gerði hlaupurum í Kaupmannahafnarhálfmaraþoninu erfitt fyrir í dag. Tveir hlauparar urðu fyrir eldingu og aflýsa þurfti hlaupinu þegar langt var liðið á það en fyrstu hlauparar sem komu í mark sluppu við rigninguna.

Kenýamaðurinn Abraham Cheroben vann hlaupið á 58 mínútum og 40 sekúndum og var 17 sekúndum frá heimsmetinu. Tími hans er besti tími í þessari vegalengd í sex ár og sá fjórði hraðasti tími frá upphafi.

Henrik Moll, vakthafandi læknir á Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn, staðfesti við BT að tveir hlauparar hefðu orðið fyrir eldingu er þeir voru að koma í mark í Austurbrú, rétt við Parken, þjóðarleikvang Dana. Þar var vatnshæðin á hlaupaleiðinni orðin 10-15 sentímetrar.

Moll sagði einnig að hlaupinu hefði verið aflýst þar sem það hefði verið talið of hættulegt.

Verðlaunaafhendingu og öðrum formsatriðum var einnig aflýst.

21 þúsund hlauparar tóku þátt í hálfmaraþoninu í ár.

Frétt DR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert